Í þessari viku hefjast haustfrí í gunnskólum landsins. Heimasíðan www.visitakureyri.is hefur sett saman lista af hlutum sem hægt er að gera til að njóta haustfríssins með fjölskyldunni á Akureyri. Hægt er að heimsækja fjölda safna, fara í sund, á skauta og skautadiskó, fara í leikhús og velja úr fjölda gönguferða sem merktar eru með upplýsingaskiltum.
- Lesið á ljósastaura. Hægt að fylgja járnbókunum sem festar eru á ljósastaura frá Amtsbókasafninu að Nonnahúsi í Innbænum eða öfugt. Hér getur öll fjölskyldan sameinast í lestri (kannski með vasaljósi) og endað á bókasafninu með góðar hugmyndir að skemmtilegu lestrarefni.
- Leikfangasýningin Friðbjarnarhúsi. Opið eftir samkomulagi. Vinsamlegast hringið í síma: 863-4531.
- Innbærinn í nýju ljósi. Tilvalið er að ganga um Innnbæinn með bæklinginn „Frá torgi til fjöru“ í hönd til að kynnast sögu bæjarins. Þegar komið er inní Innbæ eru söguskilti sem gaman er að lesa á og skoða myndirnar til að setja söguna í enn betra samhengi.
Það má líka undirbúa sig heima með því að lesa þetta: Frá torgi til fjöru
- Þekkir þú Útlagana, Sólúrið, Tilveru og þrumguðinn Þór? Ef ekki þá er tilvalið að nálgast bæklinginn „Útilistaverk á Akureyri“ á upplýsingamiðstöðinni í Hofi velja nokkur verk sem áhugavert væri að skoða og kynnast betur og einfaldlega ganga, hjóla eða keyra af stað.
Það má líka undirbúa sig heima með því að lesa þetta: Útilistaverk á Akureyri
Hægt er að nálgast bæklinginn á upplýsingamiðstöðinni í Hofi.
- Kjarnaskógur. Frábær leikvöllur og skemmtilegar gönguleiðir um skóginn. Einnig er gaman að prófa nýja klifurkastalann en auk þess er nýlega búið að setja upp hjólastólarólu á leiksvæðinu.
- Ferja, folf og sund í Hrísey. Tilvalið að taka ferjuna í Hrísey, taka með sér frísbídiska (ef veður leyfir) og sundföt. Folfið er staðsett við Gamla skóla og það er skilti við höfnina og eins á staðnum. Eftir útiveru og sundferð er svo tilvalið að skella sér á veitingastaðinn Verbúðin 66 og fá sér hressingu. Frekari upplýsingar má finna á www.hrisey.is
- Komdu í heimsókn á safn. Þessi söfn eru opin á laugardögum: Flugsafn Íslands kl 14-17, Iðnaðarsafnið kl 14-16, Mótorhjólasafn Íslands kl 14-16
-
- Minjasafnið á Akureyri: Í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna í fyrra var opnuð á sýningin „Ertu tilbúin, frú forseti?“ Þar er sjónum beint að fyrrum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur. Umkringd dökkklæddum jakkafataráðamönnum ruddi hún óhikað brautir, hvort sem það var með orðum sínum eða verkum. Þessi ímyndarsköpun lá ekki síst í vali hennar á fatnaði og frá fyrsta degi var hún tákn glæsilegrar nútímakonu. Á safninu er einnig sýningin Land fyrir stafni! Svo nefnist ný sýning á fágætum Íslandskortum sem opnuð var í júní. Sýningin samanstendur af einstökum landakortum frá 1547-1808. Lengi vel þekktu erlendir kortagerðarmenn lítið til landsins, höfðu mögulega óljósar fregnir af því og færðu hringlaga eyju inn á Evrópukortið. Þegar framliðu stundir breyttist landið úr torkennilegri eldfjallaeyju með sjóskrýmslum og furðuverum í kunnulegt land með stórskorinni strönd. Kortin endurspegla aukna þekkingu Evrópubúa á umheiminum eftir því sem fram líður. Á kortunum fjölgar örnefnum og upplýsingum skráðum af vísindalegri nákvæmni, sem þó ber fagurfræði þeirra ekki ofurliði. Safnið er opið frá kl.13.00-16.00
- Nonnahús verður með sérstaka haustopnun föstudag-sunnudags frá kl.13.00-16.00
- Listasafnið á Akureyri: Formsins vegna – Myndlist Gunnars Kr. (f. 1956) einkennist af slagkrafti og þunga sem birtist með fjölbreyttum hætti. Hann hefur t.d. teiknað biksvartar blýsólir og logskorið stálblóm. Verk Gunnars Kr. líkjast um margt náttúrunni sjálfri; þau eru sterk, form endurtaka sig og fegurðin ríkir – þótt hún sé á stundum ógnvekjandi. Kröftug en þó viðkvæm.
- Ketilhúsið: Kjólagjörningur – Þóra Karlsdottir (f. 1962) sýnir afrakstur níu mánaða kjólagjörnings sem stóð yfir frá mars til desember 2015. Að klæða sig í nýjan kjól á hverjum morgni og klæðast kjól til allra verka í 280 daga; 40 vikur; níu mánuði er áskorun sem þarfnast úthalds og elju. Í daglegri skapandi skuldbindingu getur allt gerst! Kjólarnir komu frá fólki sem gaf þá í nafni listarinnar . Sýningarnar eru opnar þriðjudaga – sunnudaga kl 12-17. Enginn aðgangseyrir.
- Skelltu þér í sund. Hér má sjá opnunartíma sundlauganna.
- Keila. Keiluhöllin er opin.
- Skautahöllin. Opið fyrir almenning fimmtudag kl.11-14.40, föstudag kl 13-16 og skautadiskó á föstudagskvöldi frá kl.19-21. Laugardag og sunnudag kl 13-16 og aukaopnun vegna haustfrís mánudaginn 24.10 kl 12-14. Aðgangseyrir er 900 fyrir fullorðna og 600 fyrir börn og skautaleigan 500 kr en gjaldskránna má finna á www.sasport.is
- Krossanesborgir. Þar eru 10 glæný fræðsluskilti sem gaman væri að lesa á – líklegast gott að hafa með sér vettlinga (til að ýta snjónum af) og jafnvel vasaljós (til að sjá ef myrkur er)
- Samkomuhúsið. Verkmenntaskólinn á Akureyri setur upp leikritið Hryllingsbúðina þann 21. og 22.okt kl.20.00 Upplýsingar um sýninguna og miðasala á www.mak.is
- Innanhússgolf. Í einni bestu aðstöðu innanhúss á landinu í kjallaranum í Íþróttahöllinni. Opnunartími í haustfríinu er 12.00-20.00 virka daga og 12.00-18.00 um helgar. Verð er 1000 kr. fyrir fullorðna en frítt fyrir börn yngri en 18 ára
- Folf (frisbígolf). Það er tilvalið að skella sér í folf í fríinu en bæði er hægt að fara hring á Hamarkotstúninu, Eiðisvelli, við Glerárskóla og á Hömrum (við tjaldsvæðið)
- Amtsbókasafnið á Akureyri. Á Amtsbókasafninu finna allir fjölskyldumeðlimir eitthvað við sitt hæfi. Í októbermánuði er Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis heiðursgestur safnsins og verður sýning sett upp af þessu tilefni, þar sem bleikar bækur og bleikar slaufur ráða ferðinni. Safnið er opið mán-fös frá kl.10.00-19.00 og laugardaga 10.00-16.00.
UMMÆLI