NTC

<strong>Hvað á svo að gera í haust?</strong>

Hvað á svo að gera í haust?

Samskipti einstaklinga eru alls ekki einföld og hafa sumir líkt þeim við ákveðna list. Enda er hægt að vera skapandi, hugvitssamur eða nýjungargjarn í samskiptum við aðra. Á sama tíma er athyglisvert hvernig ákveðin samskiptamynstur eiga það til að viðhaldast af eintómum vana. Þá langar mig sérstaklega að beina athyglinni að ákveðnum spurningum sem við missum út úr okkur án þess að velta þýðingu þeirra sérstaklega fyrir okkur. 

Þegar við rekumst á kunningja er algengt að spyrja hvernig viðkomandi hafi það og jafnvel hvað hann/hún sé að gera þessa dagana. Ung pör fá gjarnan þessar klassísku spurningar um barneignir eða fasteignakaup. Loks eru það elsku stúdentar og útskriftarnemar en þeir fá oft þessa saklausu en þrúgandi spurningu. Hvað á svo að gera í haust?

Yfirleitt er engin meinsemd að baki spurninga af þessu tagi en það getur verið ágætt að staldra við og vera meðvitaður hvaða skilaboð við erum að senda með þeim. Á þessum tíma árs eru fjölmargir sem fá boð í útskriftarveislur og því er ekki vitlaust að undirbúa sig aðeins hvernig við ætlum að koma þessari list, sem samskiptin eru, frá okkur. Viljum við yfirheyra útskriftarnemana um komandi haust, framtíðina og næstu skref? Eða viljum við njóta augnabliksins hér og nú, fagna áfanganum og tala við útskriftarnemana um það sem færir þá gleði dag frá degi?

Auðvitað erum við forvitin og okkur langar að vita hver stefnan er hjá fólki sem stendur okkur nærri. En þessi tilhneiging að kíkja inn í framtíðina er ekki endilega að auka lífsgæði okkar. Þetta er eins og að lesa bók en vera alltaf að velta fyrir sér næstu köflum. Hvað með að halda athyglinni fyrst og fremst á kaflanum sem við erum að lesa? Ætli ég sé ekki að vísa í blessuðu núvitundina sem flestir þekkja ágætlega núorðið. Hún er jú ágætis undirstaða enda vitum við aldrei hvenær við erum að lesa okkar síðasta kafla og því varasamt að vera sífellt með kastljósið á þann næsta.

Vissulega þurfum við að taka ákvarðanir fyrir framtíðina. Vissulega má rifja upp gamla tíma og rýna í fortíðina. En vitundin um núið, núvitundin, einbeiting að núverandi kafla; það gerir lesturinn mun ánægjulegri. Og þá er bara spurningin, um hvaða kafla ætlar þú að tala við útskriftarnemana sem verða á þínum vegi?

*Life is what happens to you while you’re busy making other plans*

Höfundur notar greinaskrifin sem áminningu fyrir sjálfa sig en finnst sjálfsagt að deila verkum sínum ef aðrir geta mögulega notið góðs af.

Sambíó

UMMÆLI