Húsvíkingar fá hraðhleðslustöðVið opnun hlöðunnar. Mynd: on.is

Húsvíkingar fá hraðhleðslustöð

Húsvíkingar hafa fengið hraðhleðslustöð frá ON, stöðin sem er 36. hleðslan sem Orka náttúrunnar setur upp er staðsett á lóð Orkunnar á Húsavík.

Árni Sigurbjarnarson, einn af stofnendum hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglingar, var fyrstur til að hlaða rafbíl í nýju hlöðunni. Hraðhleðslan mun auðvelda Árna að hlaða í heimabyggð en næstu hlöður ON eru á Akureyri og Mývatni.

Viðstaddir fyrstu hleðsluna voru auk Árna, Guðjón Hugberg Björnsson, tæknistjóri hjá ON, Arngrímur Arnarson, markaðsstjóri Norðursiglingar og Axel Rúnar Eyþórsson, sérfræðingur í rafmagnsmálum hjá ON.

Árni, sem nýlega seldi hlut sinn í Norðursiglingu, segir markmið fyrirtækisins ætíð hafa verið að efla sjálfbæra ferðaþjónustu og að stefna þess sé að vera leiðandi í umhverfisvænni ferðaþjónustu við strendur landsins. Fyrirtækið á og rekur tvo hvalaskoðunarbáta sem ganga fyrir rafmagni. Með slíkum bátum má lágmarka útblástur koltvísýrings og minnka vélarhljóð, sem veldur minna ónæði fyrir hvalina.

Hleðslunetið þéttist á Norðurlandi

Hraðhleðslan á Húsavík er sú 36. hleðslan sem Orka náttúrunnar setur upp til að þjóna rafbílaeigendum. Hringvegurinn er þegar opinn rafbílaeigendum þar sem ON hefur varðað hann hlöðum. Á næstu vikum og mánuðum mun net þessara innviða orkuskipta í samgöngum á Norðurlandi þéttast með væntanlegum hraðhleðslum á Kópaskeri og Vopnafirði og hleðslum á Dalvík, á Laugum, í Ásbyrgi og á Raufarhöfn.

 

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó