Þau Olga Ýr Björgvinsdóttir og Anton Friðrik Ingþórsson keyptu sér hús á dögunum í Löngumýri sem þau tóku í gegn og gerðu upp. Húsið er gamalt og mikið sem þurfti að gera við það þegar þau keyptu. Upphaflega hugsuðu þau sér að kaupa íbúð í fjölbýli sem sína fyrstu eign en þegar húsið kom á markaðinn fóru þau að skoða og féllu alveg fyrir húsinu og þeim möguleikum sem það hafði upp á að bjóða. „Við bjuggumst í raun við húsi í mikilli niðurníðslu sem yrði alltof dýrt að gera upp. Við fórum þó og skoðuðum það, og heilluðumst að öllum möguleikunum sem þetta hús hafði, sem var svo fjarri því sem við ætluðum okkur að gera í upphafi. Í raun má segja að þetta hafi verið svolítið „skyndiákvörðun“ en tilfinningin var svo sterk um að þetta ferli myndi alltaf borga sig svo við ákváðum að drífa okkur í þessu og vona það besta,“ segir Olga í samtali við Kaffið.
Rifu allt
sjálf og máluðu
Olga og Anton reyndu að gera sem mest upp á eigin spýtur, ef svo má að orði
komast. Þau rifu allt út sjálf, máluðu að innan og utan og Anton parketlagði
húsið. Þau ákváðu að hafa sama gólfefni í öllum herbergjum sem kemur ótrúlega
vel út, en þegar þau keyptu voru sex mismunandi gólfefni í húsinu. Í stærri
verkin fannst þeim þó nauðsynlegt að fá fagmenn, t.d. við að fræsa fyrir
gólfhita, smíða nýjan kvist, draga nýtt rafmagn á húsið og pípuleggja.
Kostnaðurinn safnast alltaf upp
Aðspurð hvort að framkvæmdirnar hafi verið kostnaðarsamar segir Olga það
alltaf kosta sitt að gera húsið upp og yfirleitt meira en maður gerir ráð
fyrir. Stærstu verkefnin, eins og setja gólfhita og laga kvistinn, var mesti
kostnaðurinn. „Þetta kostar alltaf sitt og safnast upp. Efniskostnaðurinn
safnast saman eins og málning, skrúfur, gólfefni og iðnaðarmenn. Gólfhitinn
kostaði um milljón, kvisturinn um tvær milljónir og að draga nýtt rafmagn á
húsið með nýjum rofum og tenglum var um hálf milljón.“
Í framkvæmdum á gömlum húsum er oft eitthvað sem kemur upp sem maður sá ekki
fyrir. Í þeirra tilfelli var það kvisturinn, en það var ekki fyrr en þau voru
að rífa upp gólfefnið sem þau tóku raka. Hins vegar fóru þau inn í ferlið með
opnum huga og vissu að eitthvað kæmi þeim örugglega á óvart þar sem saga
hússins fylgdi ekki með kaupunum. „Við kaupum húsið af Íbúðalánasjóði og það
er afhent „Í því ástandi sem það er“, þannig að húsið var tómt þegar við kaupum
það.“
Flutt inn þremur
mánuðum eftir að þau keyptu húsið
Aðspurð hvað hafi
komið mest á óvart segir Olga það hafa verið hversu tímafrekar framkvæmdirnar
voru. Allt tók lengri tíma en þau höfðu gert ráð fyrir enda aldrei farið í
framkvæmdir áður.„Tíminn sem þetta tekur. Undirbúningur á öllum verkunum var töluvert meiri
en við vorum búin að reikna með, en það svo sem kom ekki að sök. Við vorum með
mjög óraunhæft tímaplan, enda höfum við aldrei staðið í framkvæmdum áður, en
yfir höfuð gekk allt mjög vel ferlinu, þrátt fyrir óvænt verkefni og skamman
fyrirvara. Við keyptum 9.júní og vorum flutt inn 3 mánuðum síðar,“ segir Olga.
Hvað kom best út að ykkar mati?
„Gólfhitinn og hvað nýir tenglar, rofar og málning geta gert ótrúlega mikið fyrir gamalt og lúið hús! Síðan breytir svo ótrúlega miklu að hafa sama gólfefnið á öllu húsinu en þegar við kaupum þá voru held ég 6 mismunandi gólfefni.
Þetta er langtímaverkefni og maður þarf oft að bremsa sig af, fasteignin er ekki að fara neitt og fólk tekur þetta bara í pörtum eftir því sem hentar hverju sinni. Við eigum eftir að teppaleggja stigann og laga til stéttina fyrir framan húsið. Við bjuggum til dæmis í ár með flotað gólf og Anton parketlagði síðan í frítíma meðfram vinnu. Í sumar dekruðum við aðeins við pallinn og söguðum af stórum trjám. Það er mörg fleiri verkefni sem okkur langar að framkvæma í viðbót, sem eru þó ekkert sem liggur á og maður getur ekki gert allt í einu.“
Húsin í bænum er nýr liður á Kaffinu þar sem við fylgjumst með húsum og íbúðum á Akureyri sem hafa verið gerð upp. Við leitum að fleiri hús- eða íbúðareigendum sem hafa staðið í framkvæmdum og breytt gömlu í nýtt til að fjalla um hér á Kaffinu. Ef þú, eða einhver sem þú þekkir, vill deila með okkur sinni sögu endilega hafðu samband á kaffid@kaffid.is.
UMMÆLI