Húsdýragarðurinn í Fnjóskadal verður stærri en í Reykjavík


Húsdýragarðurinn Daladýrð opnaði fyrir ári og er jafnframt stærsti húsdýragarðurinn á Norðurlandi. Garðurinn er í Brúnagerði Fnjóskadal, á milli Vaglaskógar og Illugastaða. Í Brúnagerði búa hjónin Birna Kristín Friðriksdóttir og Guðbergur Egill Eyjólfsson sem eiga og reka Húsdýragarðinn ásamt börnunum sínum þremur sem öll eru á táningsaldri. Birna er einnig textílhönnuður og hannar fatnað úr ull. Hún er með opna vinnustofu á staðnum, þar sem hún vinnur að hönnun sinni og framleiðslu sem gengur undir nafninu Gjóska. Einnig eru þau hjónin með verslun í Reykjavík sem selur vörurnar.

Stærri en húsdýragarðurinn í Reykjavík
Daladýrð lokaði í september síðastliðinn, yfir vetrartímann, en opnaði aftur núna í apríl og nú framvegis stefna þau á að hafa opið allan ársins hring og verða að öllum líkindum stærsti húsdýragarður á landinu. Guðbergur Egill Eyjólfsson, eigandi, segir viðtökurnar hafa farið fram úr öllum vonum og verið alveg frábærar. „Við vorum bara mjög ánægð með viðtökurnar, við opnuðum 23. júní í fyrra og vorum með opið fram í september, á þeim tíma komu um fimm þúsund manns í heimsókn. Þegar við erum búin að gera það sem við ætlum að gera fyrir sumarið verðum við stærri en húsdýragarðurinn í Reykjavík.“

Busla hleypur um og heimtar klapp frá gestum.

Hægt að hoppa í heyið af stökkpöllum
Á bænum eru í kringum 200 dýr þar sem gefur að líta öll helstu húsdýrin, s.s. kýr, kindur, geitur hesta, gyltur og grísi, kanínur, nokkrar tegundir af hænum, íslenska hunda og kettlinga. Í næstu viku eru yrðlingar einnig væntanlegir á bæinn. Utandyra er leiksvæði fyrir börn með sandkassa, trampólínum og kofi með búi. Í hlöðunni geta krakkar svo leikið sér að því að hoppa í heyið af sérútbúnum stökkpöllum. Garðurinn er hugsaður sem afþreying fyrir alla fjölskylduna með áherslu á að leyfa gestum að kynnast íslensku húsdýrunum nánar.

Allt um kindurnar
Starfsemin er í 1.200 fermetra minkahúsi þar sem búið er að innrétta 300 fermetra veitingasal ásamt hlöðu þar sem hægt er að hoppa í heyið og aðstaða er fyrir minni dýrin. Í veitingaaðstöðunni verður áhersla lögð á eigin landbúnaðarafurðir en það kemur í ljós á næstu dögum hvað verður á boðstólnum þar. „Við erum svo að gera klárt fyrir næsta vetur þar sem við erum að útbúa aðstöðu og sýningu um kindur. Þar verður hægt að sjá flestar tegundir kinda eins og forystufé, ferhyrnu, ferkollóttu, feldfé o.fl. og fræðast um flest sem þeim viðkemur,“ segir Guðbergur.

Kanínu- og kettlingaklapp
Húsdýragarðurinn er aðeins í hálftíma keyrslufjarlægð frá Akureyri sem styttist í 15 mínútur um leið og Vaðlaheiðagöngin verða opnuð. Þar er opið alla daga vikunnar frá kl. 11-18. Gestum er velkomið að koma og klappa bæði kanínum og kettlingum en eftir tvær vikur verður einnig hægt að fara inn til geitanna og klappa þeim ásamt því að hitta hundinn Buslu, sem vappar um og biður gesti um klapp og klór.

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 14. júní.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó