NTC

Hulin ráðgáta í Hlíðarfjalli. Skotfæri úr fórum nasista fannst í fjallinu.

Hulin ráðgáta í Hlíðarfjalli. Skotfæri úr fórum nasista fannst í fjallinu.

Grenndargralið hefur nokkur undanfarin ár fjallað nokkuð um æfingabúðir bandamanna í vetrarhernaði á stríðsárunum í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Athuganir Varðveislumanna minjanna þar hafa leitt ýmislegt áhugavert í ljós um dvöl skíðaherdeilda þar á árunum 1940-1943 og spennandi stríðsminjar hafa litið dagsins ljós. Nýjasti fundur Varðveislumanna á æfingasvæði breskra, amerískra og norskra hermanna í Hlíðarfjalli er sérstaklega áhugaverður og án efa sá sem veldur mestum heilabrotum.

Gripurinn sem um ræðir er skothylki af gerðinni 7.92×57mm Mauser, framleitt í Þýskalandi árið 1937. Sú staðreynd að þýskt skothylki frá stríðsárunum finnist í æfingabúðum bandamanna á Íslandi er um margt afar óvenjuleg. Ekki síður vekur athygli að umræddur gripur er skothylki ásamt byssukúlu, sem sagt heilt skot. Endinn á hylkinu gefur jafnframt til kynna að um heilt skot er að ræða þar sem engin merki eru um far eftir gikk á byssu.

Skot af þessari gerð komu fyrst fram á sjónarsviðið á tímum þýska keisaradæmisins n.t.t. á árunum 1903-1905. Eftir fyrri heimsstyrjöld máttu Þjóðverjar aðeins framleiða vopn og skotfæri í takmörkuðu magni. Þeim leyfðist að framleiða þessa tilteknu gerð skotfæra og það einungis í einni verksmiðju. Verksmiðjan bar nafnið Polte. Árið 1924 fóru Þjóðverjar að framleiða skotfæri í fleiri verksmiðjum en þó ávallt undir bókstafnum P til að villa um fyrir eftirlitsaðilum úr röðum bandamanna. Skotið í Hlíðarfjalli er framleitt í einni af 34 verksmiðjum nasista í Þýskalandi sem framleiddu ógrynni 7.92×57mm Mauser-skota á árunum fyrir stríð og hugsuð voru fyrir stríðsbrölt nasista. Í átökum seinni heimsstyrjaldar notaði þýski herinn skot eins og það sem fannst í Hlíðarfjalli, jafnt landher sem flugher (Luftwaffe), í riffla og vélbyssur.

Eins og gjarnan var með þýsk skothylki á þessum árum ber skothylkið ítarlegar merkingar. „Klukkan 12“ á hylkinu eru upplýsingar um framleiðanda. Þar má greina stafina P69 sem stendur fyrir Patronen-, Zündh.- u. Metallwarenfabrik A.G., vorm. Sellier & Bellot, Schönebeck/Elbe. Klukkan 3 geymir upplýsingar um koparblöndu. Hylki með bókstafnum S gefa til kynna að um 67% kopar sé að ræða en hylkið úr Hlíðarfjalli ber auk þess stjörnu (S*) sem þýðir að það inniheldur hærra hlutfall kopars eða 72%. Klukkan 6 er lotunúmer sem í tilfelli Hlíðarfjallspatrónunnar er 8. Að lokum klukkan 9 má greina töluna 37 sem táknar framleiðsluár.

Þýsk skotfæri á Íslandi á stríðsárunum heyrðu til undantekninga. Dæmi eru um að skot úr þýskum flugvélum sem enduðu ferð sína á Íslandi hafi komist í umferð hér. Þá má velta fyrir sér hvort einhverjir úr hópi breskra hermanna sem hrökkluðust undan Þjóðverjum í Noregi í upphafi stríðs og komu í land á Akureyri hafi tekið þýsk skot með sér sem minjagripi. Þetta eru jú aðeins tilgátur. En að eitt slíkt skot, framleitt í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar og ónotað skuli finnast upp í fjalli á svæði þar sem bandamenn æfðu sig í vetrarhernaði vekur upp ýmsar spurningar. Þess má geta að skotið fannst í holu ásamt smárusli sem rekja má til veru hermanna í fjallinu á stríðsárunum. Leikur þannig enginn vafi á því að skotið er úr röðum hermanns sem dvaldi í fjallinu á árunum 1940-1943. Fundur þýska skothylkisins í Hlíðarfjalli er sannkölluð ráðgáta.

Hér má sjá stutt  myndband um fund skothylkisins í Hlíðarfjalli.

Heimild: Grenndargralið.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó