NTC

„Hugur minn er allur hjá íbúum Uummannaq“

Jónas Helgason.

Jónas Helgason, fyrrum kennari við Menntaskólann á Akureyri, birti færslu á facebook síðu sinni í dag þar sem hann hvetur fólk til að hugsa einnig um aðstandendur og íbúa í bænum Uummannaq á Grænlandi. Eins og flestir vita er grænlenski togarinn margumræddi frá þeim bæ og tveir áhafnarmeðlimir hans nú í gæsluvarðhaldi lögreglu.
Við birtum pistil Jónasar í heild sinni hér að neðan.

„Hugur minn er hjá…“ er mikið notað þess dagana og ekkert nema gott um það að segja. Ég hef auðvitað fylgst með fréttum eins og aðrir, en verð að viðurkenna að ég hrökk við í gær þegar ég sá mynd af grænlenska togaranum margnefnda. Rak augun í að hann er skráður í bænum Uummannaq. Hvers vegna skyldi ég hafa hrokkið við að sjá það?

Bærinn Uummannaq er einn af þessum mögnuðu stöðum sem ég hef heimsótt um ævina. Náttúrufegurðin, klettarnir, ísinn og hafið – 600 km fyrir norðan heimskautsbaug. Bærinn stendur á lítilli eyju og er því jafnvel enn einangraðri en margir aðrir staðir á Grænlandi. Þarna búa um 1500 manns og fara margir hverjir nánast aldrei af staðnum, enda eini möguleikinn á „langferð“ fokdýr ferð með þyrlu. Bátar og hundasleðar eru vissulega farartæki en bera þig ekki langar leiðir á okkar mælikvarða.

Ég gekk einn um götur bæjarins á dásamlegum ágústdegi og gaf mig á tal við afgreiðslumanninn á kaffihúsinu, kirkjuvörðinn og svo við skólastelpurnar sem komu niður á bryggju til að dansa og syngja fyrir ferðamennina sem þarna voru. Örstutt en góð kynni.

Auðvitað þekkja allir alla í þessum bæ, og fjölskyldutengsl væntanlega sterk. Ef einhverjir í áhöfn togarans margumrædda eru frá bænum vita örugglega allir hverjir þetta eru. Þeir eiga örugglega fjölskyldur og kunningja í bænum. Það eru meira að segja miklar líkur á að stelpurnar sem ég spjallaði við, og syngja og dansa á myndbandinu mínu, séu litlu systur mannanna.

Ég efast um að þessu fólki standi til boða mikil aðstoð eða áfallahjálp. Við skulum muna eftir þessu fólki sem væntanlega fylgist með fréttunum rétt eins og við – og það í myrkri, því enn eru tvær vikur í að sólin láti sjá sig í þessum fallega bæ.

Hugur minn er allur hjá íbúum Uummannaq.

Bærinn Uummannaq. Mynd: Jónas Helgason.

Bærinn Uummannaq. Mynd: Jónas Helgason.

Sambíó

UMMÆLI