Framsókn

Hugsað í lausnum

Vilhjálmur B. Bragason skrifar:

Allt í kringum okkur fáum við afskaplega misvísandi upplýsingar frá samfélaginu. Það þykir t.d. mannkostur að skafa ekkert utan af hlutunum, en á móti kemur að þetta sama fólk verður stórhættulegt í umferðinni þegar líður að vetri. Máltækið um að taka með sér nesti og nýja skó er náttúrulega alveg galið, enda nýir skór ekkert nema ávísun á hælsæri. Nýlega skó skal ég samþykkja, en það hefur sennilega ekki þótt eins grípandi. Fall er fararheill segja þeir líka – já, kannski, en það fer alveg eftir því úr hvaða hæð þetta fall var. Það er sumsé aldrei of varlega farið.

Sérstaklega í vali á íþróttum. Framan af var ég ekki mjög íþróttalega sinnaður og fólk sagði við mig að þetta snerist bara um að finna réttu íþróttina. Þegar ég var í fimmta bekk í grunnskóla fórum við á skíði í Hlíðarfjalli, en slíkt hafði ég aldrei reynt áður, og ég hugsaði með mér: „Nú er komið að þessu. Nú uppgötva ég að skíðaíþróttin er mér í blóð borin.“ Ég leigði mér skíði fyrir fúlgur fjár, sem ég vissi þó að væri lítið gjald fyrir að uppgötva eina af stóru ástunum í lífi mínu. Ég settist á bekk fyrir utan og festi á mig skíðin. Svo stóð ég upp! Eftir á að hyggja voru það mistökin sem ég gerði. Ég var náttúrutalent meðan ég sat á bekknum, en í heildina fór ég 6-7 metra þarna á bílastæðinu þennan dag, milli þess sem ég datt, gafst svo upp og skilaði skíðunum. Svo fór ég inn og pantaði mér franskar. Stundum er það eina rökrétta lausnin.

Vilhjálmur B. Bragason, Vandræðaskáld

Sambíó

UMMÆLI