HSN á Dalvík fékk sónartæki að gjöf frá kvenfélögum á svæðinu

HSN á Dalvík fékk sónartæki að gjöf frá kvenfélögum á svæðinu

Í byrjun árs fékk HSN á Dalvík formlega afhent þráðlaust sónartæki að gjöf frá kvenfélögunum Hvöt Árskógsströnd og Tilraun í Svarfaðardal. Þetta kemur fram á vef HSN.

Sónartækið er færanlegt og þráðlaust, af tegundinni Eagle View og má segja að sé þrjú tæki í einu tæki. Tækið sendir frá sér hljóðbylgjur sem nema viðnámið og sendir myndbandsupptöku eða myndir beint í spjaldtölvu eða farsíma sem tekur á móti þráðlausum boðum frá tækinu.

Tækið er bylting fyrir heilsugæslustöðina á Dalvík en þar mun það nýtast að mestu í meðgönguverndinni, meðal annars til að meta legu fósturs sé það ekki ljóst með klínísku mati. Einnig er hægt að greina hjartslátt fósturs fyrr á meðgöngu heldur en með því tæki sem fyrir er á heilsugæslunni. 12 vikna og 20 vikna sónarskoðanir munu áfram fara fram á Akureyri. Tækið nýtist einnig til að finna vökvasöfnun, merki um innvortis blæðingar, gallsteina, greina æðar til að meta skaðann þegar um beinbrot er að ræða og fleira.

Tækið er einstaklega fyrirferðalítið og því þægilegt að flytja það á milli staða í þeim tilfellum sem þess er krafist. Tækið er kærkomin viðbót við þann tækjabúnað sem fyrir er og eykur möguleika á eflingu á þjónustu í heimabyggð.

Gjafir sem þessar styðja við mikilvægt starf heilsugæslunnar og er HSN afar þakklát kvenfélögunum.

Frétt um afhendingu gjafarinnar birtist á vef Dalvíkurbyggðar 10. janúar síðastliðinn.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó