Hrollvekja Lagerlöf heillaði ritstjóra á Akureyri

Körkarlen (The Phantom Carriage) var sýnd í kvikmyndahúsi á Akureyri í janúar 1924.

Brynjar Karl Óttarsson skrifar:

Í janúar árið 1924 var sænska kvikmyndin Körkarlen, Ökusveinninn upp á ástkæra ylhýra (ensk þýð. The Phantom Carriage), sýnd í nýju bíóhúsi við Hafnarstræti 73 á Akureyri. Kvikmyndin var gerð eftir sögu Nóbelskáldsins Selmu Lagerlöf (1858-1940) og leikstýrð af Victor Sjöström (1879-1960). Myndin var frumsýnd í Svíþjóð árið 1922. Fjórum árum áður var önnur mynd í leikstjórn Sjöström frumsýnd í sænskum kvikmyndahúsum. Hún var byggð á leikriti eftir íslenskt leikritaskáld. Ári síðar heimsótti skáldið Akureyri og hafði jafnvel uppi áform um að setjast þar að!

Árið 1912 skrifaði Selma Lagerlöf sögu um framliðinn ökusvein sérstaks dauðavagns. Hann ekur um á vagninum og hirðir upp sálir þeirra sem eru um það bil að hverfa á vit feðra sinna. Hér er byggt á þekktu minni úr evrópskum þjóðsögum þar sem sá eða sú sem síðast lætur lífið áður en nýtt ár gengur í garð skal aka dauðavagninum í eitt ár. Sagan segir frá óþokkanum David Holm sem hlýtur það vafasama hlutverk að aka vagninum þegar hann deyr seint á gamlárskvöld. Á meðan akstrinum stendur gefst honum tækifæri til að gera upp lífshlaupið og horfast í augu við allar syndirnar í lifanda lífi. Ástæðuna fyrir því að Lagerlöf skrifaði söguna má rekja til þess að hún var ráðin af sænskum samtökum til að uppfræða almenning um berkla, smitleiðir og varnir gegn þeim. Hún hafði sjálf reynslu af sjúkdómnum því systir hennar og aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu smitast af hvíta dauða. Þar sem henni þótti auðveldara að koma boðskapnum á framfæri í gegnum skáldskap frekar en að setja saman fræðilegan texta um sjúkdóminn, skrifaði hún skáldsögu sem fékk heitið Körkarlen (ensk þýð. Thy Soul Shall Bear Witness!) rétt eins og kvikmyndin.

Selma Lagerlöf og Victor Sjöström.

Victor Sjöström leikstýrði myndinni, skrifaði handritið ásamt Selmu Lagerlöf og lék aðalhlutverkið. Myndin varð alþjóðlegur smellur, ekki síst vakti hún athygli fyrir framúrstefnulegar tæknibrellur. Hún tryggði honum samning við kvikmyndarisann Metro-Goldwyn-Meyer í Bandaríkjunum þar sem hann starfaði við kvikmyndagerð næstu árin áður en hann snéri aftur til Svíþjóðar. Sjöström er án nokkurs vafa einn áhrifamesti leikstjóri sænskrar kvikmyndasögu. Leikstjórar eins og Ingmar Bergmann og Stanley Kubrick hafa vísað í verk hans í myndum sínum. Áður en frægðarsól hans skein sem hæst hafði hann leikstýrt myndum í tugatali í heimalandinu. Ein þeirra var gerð eftir leikriti Jóhanns Sigurjónssonar frá árinu 1911; Fjalla-Eyvindur.

Á fullveldisárinu 1918 var myndin Berg-Ejvind och hans hustfru frumsýnd í Svíþjóð (ensk þýð. The Outlaw and His Wife). Sem fyrr leikstýrði Sjöström, skrifaði handritið ásamt Jóhanni og lék aðalhlutverkið. Myndin var tekin upp vorið og sumarið 1917 í Lapplandi þar sem reynt var að líkja eftir hálendi Íslands. Skáldinu Jóhanni og leikstjóranum Sjöström var vel til vina og gladdi það Íslendinginn þegar sá sænski lýsti yfir áhuga á að færa leikritið yfir á hvíta tjaldið. Til stóð að taka myndina upp á Íslandi en vegna heimsstyrjaldarinnar var það ekki mögulegt. Jóhann var staddur á Akureyri um það leyti sem myndin var frumsýnd á Íslandi vorið 1919. Gengu þær sögur fjöllunum hærra að hann ætlaði sér að flytja til Akureyrar og að búferlaflutningarnir tengdust atvinnustarfsemi í sjávarútvegi. Heilsu hans hafði hrakað á meðan Íslandsdvölinni stóð. Ekkert varð af flutningunum til Akureyrar og í júní var hann kominn heim til Danmerkur. Var hann þá orðinn fárveikur, svo mjög að hann var lagður inn á sjúkrahús um leið og hann steig á danska grund. Jóhann náði sér aldrei eftir þetta. Hann lést að heimili sínu í Kaupmannahöfn 31. ágúst 1919 í faðmi eiginkonu sinnar Ingeborg. Minni úr evrópskum þjóðsögum komu ekki við sögu á dánarbeði Jóhanns svo vitað sé, engir ökusveinar eða vagnar, aðeins gömul íslensk þjóðtrú. Inbegorg lýsir síðustu andartökum skáldsins svo í endurminningum sínum:

Svo var það einu sinni með morgunsárinu að Jóhann bað mig að opna alla glugga að gömlum íslenskum sið svo að sálin gæti flogið leiðar sinnar. Við höfðum horft ástaraugum hvort á annað og talað saman í hálfum hljóðum alla nóttina. Svo kom dauðinn í allri sinni óbilgirni en Jóhanni mínum þó svo líknsamur að ekkert þjáningarkast var honum samfara. Ég bað mennina tvo, sem kistulögðu Jóhann, um að mega hafa hann hjá mér nóttina eftir. Alla þá nótt sat ég við kistuna og horfði á undurfagra andlitið hans þar sem sérhver þjáningarhrukka var nú horfin. Það var svo ótal margt sem ég þurfti að segja við Jóhann þessar síðustu klukkustundir áður en þeir komu að sækja ástvin minn.

Jóhann Sigurjónsson var staddur á Akureyri þegar mynd eftir leikriti hans var frumsýnd í bænum.

Kvikmyndahúsið í Hafnarstræti 73 var tekið í notkun hálfu ári fyrir sýningu Körkarlen. Þótti mörgum mikið til hússins koma vegna stærðar þess og útlits. Bíógestir á Akureyri hafa því sjálfsagt notið þess að horfa á sænsku hrollvekjuna á stóru tjaldi í glæsilegum húsakynnum þess tíma fyrir hartnær öld síðan. Í dag er myndin löngu orðin klassísk og af mörgum talin eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Jónas Þorbergsson ritstjóri Dags hélt ekki vatni yfir myndinni eins og lesa mátti um í Degi í janúar 1924. „Dagur vill hvetja til þess að þessi mynd verði sýnd svo oft hér í bænum, sem unt er, meðan félagið á þess kost, en láti fremur falla niður sýningar á reifararusli og hégómamyndum, sem ærið berst af hingað í fátæktina“. Hver veit nema boðskapur Selmu hafi snert ritstjórann? Hann var á þessum tíma einn helsti talsmaður þess að heilsuhæli fyrir berklasjúklinga yrði reist á Norðurlandi.

Greinin birtist upphaflega á heimasíðu Grenndargralsins. Þar má sjá fleiri myndir og stiklu úr kvikmyndinni Körkarlen.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó