Undanfarin ár hefur Hrekkjavakan orðið vinsælli á Akureyri og sú hefð hefur skapast á Akureyri að allskyns furðuverur séu á ferð um bæinn 31. október. Hrekkjavakan er bandarísk hátíð þar sem börn og ungmenni ganga í hús og sníkja nammi frá íbúum.
Akureyringar sem hafa áhuga á að gefa sælgæti til furðuveranna hafa merkt við sig á þar til gerðum lista sem hægt er að finna í hópnum Hrekkjavaka á Akureyri á Facebook.
„Vegna þess að börn eru á ferð þetta kvöld í myrkri, aðallega milli kl 17 og 20 (en örugglega eitthvað aðeins lengur), langar okkur a biðja fólk um að fara varlega í umferðinni, gangandi eða akandi.
Munum eftir umferðarreglunum og notum endurskinsmerki svo börnin okkar sjáist og skili sér heil heim.
Þá viljum við einnig minna foreldra á að brýna fyrir börnunum sínum að sýna kurteisi og virðingu og aðeins að banka hjá þeim sem hafa skráð sig á listann enda viljum við ekki ónáða þá sem ekki hafa áhuga á að vera með,“ segir Þorbjörg Dagný Kristbjörnsdóttir sem sér um hópinn.
Ýmsar gagnlegar upplýsingar um endurskinsmerki og notkun þeirra er að finna hér.
UMMÆLI