Gæludýr.is

Hreinsum strandir landsins

5. maí, er strandhreinsunardagurinn og þá eru allir þeir sem vettlingi geta valdið beðnir um að ganga fjörur í sínu nágrenni og tína ruslið úr þeim. Það helsta sem mun koma upp úr krafsinu er ómælt magn af plasti af öllum stærðum og gerðum. Plastrusl er það helsta sem finna má í fjörum landsins og það er ekki bara það sýnilega, líka agnarsmátt. Svo smátt að það getur smogið inn í fæðukeðjuna og orðið hluti af sjávardýrum sem við leggjum okkur svo til munns.

En hvaðan kemur allt þetta plast? Það er á okkur sjálfum, fólkinu sem byggir Ísland og þessa jörð og stafar einfaldlega af neyslu okkar, sem vex veldisvexti með hverju árinu sem líður. Seldar eru til að mynda milljón plastflöskur á mínútu í dag og það mun bara aukast. Þorri þeirra myndar hluta af þeim bílfarm af plasti sem endar í sjónum á hverri mínútu um þessar mundir og fer fram sem horfir verður meira plast í höfunum en fiskar um 2050. Þar sem hafstraumar mynda hringiður í úthöfunum dregst saman efni sem endað hefur í sjónum. Frægasta dæmið er ruslahringiðan mikla í Norður Kyrrahafi, sem ku vera á stærð við Texas ríki í Bandaríkjunum, eða um sjö sinnum flatarmál Íslands. Fleiri smærri eru til, en vandinn vex.

Utan þess að plastið er til lýta fyrir haf og strandir, stafar dýralífi bein hætta af plastinu. Dýrin festa sig eða flækja í plastgirni, dósaplasthringjum eða innbyrða plastpoka í miklu magni. Hræ fugla og sjávarspendýra sem finnast innihalda jafnan eitthvað af plasti, líka umhverfis Ísland. Það sem verra er þó við plastið er að efnaniðurbrot þess tekur árhundruð. Það leiðir til þess að plastið óbreytt molnar niður og brotnar í æ smærri eindir. Margar sandfjörur heimsins hafa nú mælanlegt hlutfall plasts, plastkorn sem við teljum vera sand. Á endanum verður plastið örplast, sem svo kemst í fæðukeðju sjávardýra, en efst í henni stöndum við mannfólkið. Við erum sumsé farin að borða plastið sem rekur á fjörur okkar.

En hvað er til ráða? Eitt er auðvitað að koma öllu plasti í endurvinnslu, en það er þó bara plástur og leysir ekki vandann. Þá eru mögulegar tæknilausnir, t.d. heyrðist af vísindafólki sem fann bakteríur sem gátu nærst á plastinu. Vandinn hér er þó að það getur haft ófyrirséðar afleiðingar ef örverum yrði t.d. sáldrað yfir ruslahringiðuna miklu í Kyrrahafi. Nú á tímum loftslagsbreytinga og óvissu í umhverfismálum er að renna upp fyrir mörgum að tæknilausnir okkar mannfólksins eru ekki endilega allar til góðs. Eina raunverulega ráðið er að draga úr plastnotkun með öllum ráðum. Upplýsingar og reglusetning vinna best saman þar. Mörg ríki, t.d. í Afríku og Ameríku, hafa bannað plastpoka. Það er til eftirbreytni, eða hreinlega setja 500 kr. gjald fyrir pokann, sem færi þó varla nærri raunverulegum umhverfiskostnaði af pokanum. Það er góðra gjalda vert að plokka sorp úr fjörum eða nærumhverfi sínu, en þegar upp er staðið verðum við að draga úr notkun og neyslu, hægja á og horfa til fjölnota umbúða svo sem úr gleri og leir, sem raunverulega eru bara sandur þegar það molnar niður.

Edward H. Huijbens

Höfundur er varaformaður VG og skipar þriðja sæti á lista VG Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó