NTC

Hrafndís vill leiða lista Pírata á Akureyri

Hrafndís vill leiða lista Pírata á Akureyri

Hrafndís Bára Einarsdóttir sækist eftir því að fá að leiða lista Pírata í sveitarstjórnarkosningunum á Akureyri í ár. Hrafndís segist brenna fyrir gagnsæi og aukinni sjálfbærni í rekstri sveitarfélaga.

„Þá er ég þess fullviss að til að tryggja heilbrigt samfélag þurfum við fyrst og fremst að huga að unga fólkinu okkar og tryggja áhyggjulaust ævikvöld. Þá verður millistefið sterkara,“ segir hún í tilkynningu.

Sjá einnig: Oddviti Pírata á Akureyri úr sviðsljósi stjórnmála á skólabekk

Í sveitarstjórnarkosningunum síðustu starfaði Hrafndís sem kosningastjóri Pírata á Akureyri og þekkir því nokkuð vel vinnuna við það er að vera í framboði. Hún segist tilbúin í þá vinnu núna.

Árið 2010 útskrifaðist hún með diplómagráðu í leiklist og framkomufræðum frá Kvikmyndaskóla Íslands. Vorið 2016 útskrifaðist hún með diplómagráðu í viðburðastjórnun frá ferðamáladeild Háskólans á Hólum.

„Ég hef starfað á mörgum ólíkum sviðum og vettvöngum og sæki mjög í að starfa í fjölbreyttu umhverfi og við misjafnar og krefjandi aðstæður. Þannig finnst mér ég alltaf vera að bæta við mig færni og þekkingu. Meðal þess sem má nefna er ýmisskonar starf með börnum og unglingum, leiklist, menningarstarfsemi ýmisskonar, leikstjórn og leiklistarkennsla, framreiðsla matar, matarhönnun og svo má lengi telja,“ segir hún.

Frestur til að bjóða sig fram í prófkjöri Pírata er til 1.mars. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó