NTC

Hörgárbraut og þögnin mikla

Hörgárbraut og þögnin mikla

Auður Ólafsdóttir skrifar:

Mikið hefur verið rætt meðal almennings um Hörgárbraut og þau hræðilegu slys sem þar hafa í gegnum tíðina. Eftir síðasta slysið, sem varð þ. 7. febrúar sl., er fólk hálf lamað sem býr beggja megin við Hörgárbraut. Það vill fá einhverja hughreystingu og fá að vita hvað hægt er að gera á þessum kafla, enda héldu flest allir að gönguljós væru betri en ekkert. Fólk er hætt að treysta sér og sínum að fara yfir Hörgárbrautina, svo mikið er víst, og vill fá einhverjar upplýsingar um hvort og þá hvað eigi að gera til að fólk geti treyst því að komast yfir götuna. Gönguljósin eru greinilega ekki traustvekjandi leið.

Það er líka frekar ótraustvekjandi að ekki hafi heyrst píp frá Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrar, né frá Höllu Björk Reynisdóttur, forseta bæjarstjórnar, um  þennan vegakafla, og svo virðist sem núverandi bæjarstjórn finnist þetta ekki koma sér við. Það heyrist nefnilega ekki í neinum, nema Tryggva Má Ingvarssyni formanni Skipulagsráðs, sem hefur sent tilkynningu um að Skipulagsráð harmi slysið. En hvað svo? Mér er kunnugt um að Vegagerðin og Skipulagsráð séu að tala saman um ýmsar umbætur sem hægt er að gera á áðurnefndum stað. Hins vegar, enn og aftur, þarf að tala við íbúa Akureyrarbæjar um hvaða möguleikar eru í stöðunni. Hvað er hægt að gera og útskýra með góðum rökum af hverju þetta en ekki hitt. Róa íbúa og að þeir fái að fylgjast með. En þetta er bara alls ekki tilfellið.

Sjá einnig: Hættan á Hörgárbraut

Á meðan þögnin ríkir frá bæjarstarfsmönnum/Vegagerð þá hefur hópur fólks ekki setið auðum höndum. Íbúar bæjarins hafa tja sig á samfélagsmiðlum og þar kemur fram að mörg þeirra hafa í gegnum tíðina orðið vitni að fjölmörgum slysum og árekstrum á fyrrnefndri Hörgárbraut milli hringtorgsins við Undirhlíð og gatnamótanna við Glerárgötu. En það sem fer einnig fyrir brjóstið á fólki er hve margir hafa orðið vitni að því að bílar keyri yfir á rauðu ljósi á báðum gönguljósunum, jafnvel hefur fólk tjáð sig um að hafa næstum orðið fyrir bíl þótt grænn kall sé á, og enn aðrir hafa talað um að hafa orðið vitni að því sama.

Einnig hafa þó nokkrir tjáð sig um að hafa séð fólk gera það að gamni sínu að ýta á takkann en fari ekki yfir, sem og að erlendir ferðamenn leggi bíl sínum við strætóstoppistöðina við ljósin, stökkvi út, ýti ítrekað á takkann til að geta tekið „selfie“ af sér með rauða hjartanu. Við, sem búum í hverfinu keyrum þennan part eða göngum nefnilega býsna oft  á hverjum degi og það er í rauninni lygilegt hve margir hafa orðið vitni að ýmsu misjöfnu. Vegna þessara ummæla íbúa var ákveðið að setja upp Facebook síðuna Hörgárbraut örugg fyrir gangandi vegfarendur. Hún er opin öllum sem vilja tjá sig um þetta málefni, enda varðar öryggið alla sem þarna eiga leið um.  Á síðunni er m.a. könnun um hvað fólk vill sjá að verði gert til að forða slysum á þessum kafla og eru svarmöguleikarnir eftrifarandi:   – undirgöng – þrengingar  – annað.

Svarmöguleikar eru settir fram skv. þeim litlu upplýsingum sem hafa komið fram um hvaða möguleikar eru fyrir hendi að gera á þessum vegakafla til að auka öryggi gangandi vegfarenda. Ef ég hef rangtúlkað þær upplýsingar óska ég eftir að það verði leiðrétt sem fyrst af þeim sem hafa ákvörðunarvaldið í umferðarmálum. Eins og er þá hafa 82 af þeim 88 sem nú þegar hafa tekið þátt í könnunninni sagst vilja fá undirgöng. Einhverjir hafa nefnt göngubrú, en hún var ekki sett inn sem valkostur þar sem ég fékk þau viðbrögð frá Vegagerð að það væri ekki valkostur. Enn og aftur, ef þetta er rangtúlkun óska ég eftir að það verði leiðrétt af þeim sem hafa ákvörðunarvaldið í umferðarmálum á títtnefndri Hörgárbraut. 

Í framhaldi af þessu þá sá ég viðtal við Ásdísi Hlökk Thedórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunar í fréttum  RÚV,  mánudaginn  02.03. sl. Þar minntist hún m.a. á umferðaröryggi barna, og nefndi sérstaklega í því tilefni slys sem hafa orðið sl. misseri í Reykjavík og á Akureyri þar sem keyrt er á börn. Hún nefndi að sjálfgefin lausn á slíkum slysum hafi verið sú að grafa þyrfti göng undir slíkar götur fyrir börnin í stað þess að horfa á víðara samhengi. Hún segir að vissulega sé það ein aðgerðin sem kemur til greina,  

„en ef við horfum til framtíðar og víðari sjónarhorna eigum við þá ekki frekar og allt eins að horfa til lausna sem lúta að því að þrengja að bílunum og hægja þannig á umferðinni og hafa  umhverfið á forsendum barnanna og hinna gangandi.“

Í sama fréttatíma svo kom önnur frétt frá Akureyri vegna nýrra umferðarlaga og þar var rætt um trassaskap bílstjóra við að skafa rúður. Tekið var viðtal við fólk á förnum vegi um hvað þeim þætti vera möguleg ástæða þess að fólk skafi ekki rúðurnar. Fólkið nefndi m.a.  að ástæðan gæti falist í því að ökumenn væru mögulega að flýta sér, færu of seint af stað og því með illa skafnar rúður.

Það er grátbroslegt að eftir viðtal  við skipulagsstjóra um öryggi gangandi vegfarenda er á sama tíma tekið fyrir vandamál sem beinist að ökumönnum. Það gleymist nefnilega oft að nefna þá í umræðunni. 

Ökumenn eru jafn misjafnir og þeir eru margir, sbr. þessa síðastnefndu frétt. Margir slugsa við að skafa rúðurnar og ég fullyrði að allir ökumenn hafi á einhverjum tímapunkti alls ekki haft hugann við aksturinn. Hvað veldur því að ökumenn lenda í slysum má rekja til ýmissa þátta er þessu viðkemur. Hins vegar ætlar sér enginn ökumaðurað keyra á fólk eða valda slysi yfirhöfuð. 

Um Hörgárbraut aka 12.000 bílar á dag jafnt innanbæjar- sem utanbæjarfólk, enda er Hörgárbraut skilgreind sem hluti af þjóðvegi 1. Sá kafli, sem slysin á gangandi fólk hafa gerst, spannar aðeins um 300 metra gott fólk.  Það þarf ekki meira til. Öll 3 slysin sl. 4 ár hafa gerst þar á svæðum þar sem gangandi vegfarandi á samkvæmt umferðarlögum að eiga allan rétt á og vera öruggur um að komast klakklaust yfir og treysta að fólk í umferðinni fari eftir umferðareglum. Um þetta snýst þetta allt –  er það ekki? 

Það að þrjár ákeyrslur á gangandi vegfarendur á 4 árum af ökumanni mörg hundruð kílóa bíl sem mannslíkaminn á í rauninni ekki roð gegn er alls ekki ásættanlegt. Hvað þá að tvö síðustu slysin hafi gerst á 1,5 ára tímabili og það á 5 og 6 ára gömul börn, íbúar hverfisins sem kunna bæði mjög vel á umferðareglurnar. Þau treystu því að vera örugg um að komast yfir á þeim stöðum sem þau urðu fyrir bíl, enda var búið að kenna þeim að bílar eiga að stoppa á rauðu og það á að bíða eftir að bílarnir stoppi áður en gengið er yfir á gangbraut. Þetta kunnu krakkarnir, svo hvað klikkaði? 

Traust og öryggi er löngu farið eftir síðasta slys, sem varð þann 7. febrúar sl. Að ætla fólki að fara gangandi yfir götuna er glapræði, og um þetta hefur verið talað í meira eða minna en 30 ár gott fólk, þegar dauðaslys varð eftir að keyrt var á gangandi  vegfarenda á þeim slóðum sem síðasta slys gerðist.

Í fyrrnefndu viðtali á RÚV talaði Skipulaggsstjóri um þrengingar og að hægja á umferð. Ég held að fólk treysti ekki að það virki, því það eru ökumenn sem keyra bílana. Þeirra athyglisbrestur, eða hvað annað sem ónáðar þá eða pirrar í umferðinni, veldur slysum. Þrengingar leysa það ekki. Hvað gerist þegar þrengt er að ökumönnum og flæði umferðar heftist? Verða ökumenn hæstánægðir eða ppirrast yfir auknum töfum og þrengingum?  Bara smá hugleiðng. 

Annað umhugsunarefni er hversu langt myndi röð bílanna ná vegna þrenginga og hægari umferðar? Til er mynd frá því þrengingar voru gerðar þegar vatnslagnirnar voru lagðar fyrir uþb. ári síðan tekin af einum íbúa við götuna. . Umferðin komst ekkert áfram og bílaröðin náði upp og inn á hringtorgið við Undirhlíð. Þrengingar hefta flæði umferðar og umferðin er ekkert að minnka. Það er bara staðreynd. Það eina sem forðar börnum – sem og öðrum gangandi, hjólandi og vegfarendum á hækjum og hjólastólum og seinfara fólki, er að þurfa ekki að þvera götuna, PUNKTUR. 

Ef horfa á til framtíðar, eins og forstjóri Skipulagsstofnunar nefndi á RÚV, þarf að byrja á að gera samgöngur betri og skilvirkari hjá strætó bæjarins þannig að það hvetji fólk til að taka strætó – það sé raunsætt val fyrir fólk.  Sekta endalaust ökumenn sem leggja þannig að ekki er hægt að skafa götur og gangstéttar fyrir fyrrnefnda vegfarendur. Þá fyrst væri kannski raunhæft að gera hindranir á þjóðveg 1. En til framtíðar er allavega ég enn þeirrar skoðunar að það eigi að gera brú eða undirgöng. Það væri gert á forsendum barnanna, sem og annara sem þurfa og vilja komast yfir án þess að kvíða því.

Þann 28. febrúar sl. kom svo fréttatilkynning frá Vegagerðinni um að þessi misserin væri verið að setja göngubrýr yfir Reykjanesbraut. Af hverju er ekki þrengt að bílum þar? Af hverju er mögulegt að setja brýr þar en ekki yfir Hörgárbraut? Hvað réði þeirri ákvörðun ? Eru það bara íbúar Akureyrar, sem sagt er að séu hræddir við undirgöng/ brýr? Er fólk í Hafnarfirði ekki hrætt?  

Okkur íbúar Akureyrarbæjar þyrstir í svör og óskum eftir að bæjaryfirvöld sjái sóma sinn í því að taka frumkvæði í að halda íbúafund sem fyrst um málið.  Þetta er þjóðvegur 1 – málið varðar okkur öll. 

Sambíó

UMMÆLI