NTC

Horfin grunngildi?

Gunnar Torfi skrifar

„Kosningabaráttan á Akureyri líkist meira huggulegu spjalli í saumaklúbb en alvöru kosningabaráttu“. Svona byrjar pistill Sóleyjar Bjarkar hér á Kaffinu, þar sem hún lýsir samskiptum frambjóðenda árið 2014. Lítið virðist hafa breyst miðað við umræðu í kosningabaráttu síðustu daga.

Ber Akureyringum svo að skilja að ekki hafi steytt á einu einasta mikilvæga máli síðustu 4 árin? Að bæjarfulltrúar séu svo sammála um allt að bæjarstjórnarfundir séu líkari kaffihúsahitting en stjórnmálafundum þar sem fólk tekst á um mismunandi grunngildi? Eru allir sáttir við að umbætur á sundlaug sem átti að kosta 320 milljónir sé komin töluvert fram úr áætlun? Er engin gagnrýni á þá staðreynd að 41 einstaklingur telst heimilislaus eða utangarðs á Akureyri? Var samstaða um að láta dagvistunarmál drabbast niður á meðan fólki er seld hugmyndin um fjölskyldubæinn Akureyri? Gagnrýnir enginn kostnaðaraukann við nýbyggingu listasafnsins? Náðu bæjarfulltrúar sér bara í aðra kökusneið þegar upp komst að fyrirtækið Tækifæri hf hafi nánast verið gefið? Rann kaffisopinn ágætlega niður þegar fréttist af Kraftbílum hrökklast frá Akureyri vegna lóðaverðs? Eru allir sáttir við leigufélög? Deilir engin um Airbnb? Svo fátt eitt sé nefnt.

Línan á milli rökræðna og rifrildis getur verið fín, einnig á milli gagnrýni og nöldurs, aðhalds og afturhalds. Einnig er stundum erfitt að greina á milli sáttfýsi og undirlátsemi. En að frambjóðendur komi nú fram og segi að líðandi kjörtímabil hafi bara verið dans á rósum, að allt sé svo æðislegt á Akureyri, ber vott um undirlátsemi á háu stigi eða fullkomin skort á grunngildum.

Höfundur skipar 22. sæti á lista Pírata á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI