„Hoppið“ fellt niður hjá Air Iceland Connect um mánaðarmótin

Akureyrarflugvöllur.

„Hoppið“ hjá Air Iceland Connect hefur lengi vel verið þekktur ódýr valkostur fyrir ungt fólk í innanlandsflugi. Hoppgjaldið er í boði fyrir 12-25 ára og er ódýrara en almennt gjald, kostar í kringum 10.000 krónur með innrituðum farangri inniföldum. Hægt er að bóka „hoppið“ með stuttum fyrirvara en þeir sem bóka slíkt fargjald mæta alltaf afgangi, þannig að ef fullt er vélina komast þeir ekki með. Þetta hefur reynst námsmönnum af landsbyggðinni vel í gegnum árin sem nýta sér þetta óspart til að heimsækja fjölskyldur og ættingja utan höfuðborgarsvæðisins t.d.

Nú hefur komið fram í tilkynningu frá Air Iceland Connect að ekki verður í boði að hoppa lengur eftir 31. maí n.k. Mikil óánægja ríkir um þessa ákvörðun meðan ungs fólks.

Hoppið ekki lengur hagkvæmast skv. framkvæmdarstjóra
Framkvæmdarstjóri flugfélagsins, Árni Gunnarsson, segir í samtali við vísir.is að hoppfargjöld séu ekki lengur hagkvæmasti kosturinn og því hafi verið ákveðið að leggja það niður.

„Það hefur orðið breyting á framboði fargjalda þannig að nú er Hopp-fargjald ekki lengur ódýrasta fargjaldið heldur bjóðum við fargjöld nú allt niður í 6.900.- á staðfestu fargjaldi og því er það betri valkostur fyrir farþega í mörgum tilfellum,“ segir Árni í samtali við Vísi.

Viðskiptavinum er bent á svokölluð ,,Létt fargjöld“ í staðinn og ,,Flugfélaga“. Flugfélagar felst í því að keyptir eru sex flugleggir í einu á 59.400 krónur. Hingað til hefur það aðeins verið í boði fyrir 12-20 ára en þann 1. júní n.k. munu þessi efri aldurstakmörk hækka úr 20 ára í 25 ára. Þar er verðið sambærilegt og á hoppfargjaldi, þar eru sveigjanleg fargjöld og farþegar ekki bundnir óvissu hvort þeir komist í flug. Eina er að þú þarft að kaupa sex flugleggi á einu bretti, eins og áður sagði. Árni segir jafnframt í samtali við Vísi að félagið bjóði upp á mjög góð, almenn fargjöld ef farþegar kaupa með fyrirvara.

Úrræðin góð en leysa hoppið ekki af 
Ungt fólk af landsbyggðinni hefur gagnrýnt þessa ákvörðun í fjölmiðlum og segja þessi úrræði ekki leysa hoppið af. Þá segja þeir það óhentugt að í Flugfélagapakkanum þarf að bóka flug með viku fyrirvara og léttu fargjöldin séu ekki hagkvæm nema með góðum fyrirvara. Í léttu fargjöldunum þarf einnig að borga sérstaklega fyrir tösku en í hoppinu er allur farangur innifalinn. Nokkrir fullyrða að þeir hefðu ekki nýtt sér flugið eins oft og raun ber vitni ef hoppfargjald hefði ekki verið í boði.
Fátækir námsmenn af landsbyggðinni ættu að geta haft greiðan aðgang að því að heimsækja fjölskyldu sína í fríum eða eins og ef eitthvað kemur upp á með skömmum fyrirvara.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó