NTC

Hönnuður Jón í lit með fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri

a-almara
Eins og flestir ættu að vera farnir að taka eftir þá er ekki nokkurt heimili á Íslandi hæft til búsetu án þess að mynd af Jóni Sigðurðssyni í lit prýði veggi heimilisins. Nú fá Akureyringar tækifæri til þess að hitta hönnuðinn á bakvið þessar merkilegu myndir.

Þriðjudaginn 1. nóvember kl. 17-17.40 heldur Almar Alfreðsson, vöruhönnuður, þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Hvað liggur að baki? Í fyrirlestrinum fjallar hann um af hverju vöruhönnun varð fyrir valinu hjá honum sjálfum, Jón í lit ævintýrið, Sjoppulífið og hvernig sögur og tilfinningar veita honum innblástur við hönnun.

Almar útskrifaðist með BA-gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands 2011. Hann hefur frá 2012 eingöngu unnið sem vöruhönnuður og rekur ásamt eiginkonu sinni hönnunarfyrirtækið Almar vöruhönnun, en það framleiðir meðal annars Jón í lit. Einnig eiga þau hjónin minnstu og einu hönnunarsjoppu landsins, Sjoppuna vöruhús, sem staðsett er í Listagilinu.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri og er öllum opin. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Pamela Swainson, myndlistarkona, Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður og Lárus H. List, formaður Myndlistarfélagsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó