Höfuðáhersla lögð á að verja viðkvæmustu hópana

Höfuðáhersla lögð á að verja viðkvæmustu hópana

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, segir að strax eftir fréttafund ríkisstjórnar Íslands í gær hafi verið boðað til fundar í neyðarstjórn Akureyrarbæjar þar sem lagðar voru línur um framhaldið í stofnunum og starfsemi sveitarfélagsins.

„Við höfum brugðist eins fljótt og auðið er við þeirri óvæntu og ógnvænlegu stöðu sem nú er komin upp. Ég held að fyrir viku hafi fæsta grunað í hvað stefndi en blaðamannafundur heilbrigðisyfirvalda í gær færði okkur heldur ískyggilegar fréttir,“ segir Ásthildur í svari við fyrirspurn Kaffið.is.

Hún segir að lagt verði höfuðáherslu á að verja viðkvæmustu hópana. Nú þegar hafa sóttvarnareglur verið hertar hjá Öldrunarheimilum Akureyrar og það sama er verið að gera í búsetukjörnum fyrir fratlað fólk.

 „Því miður er ljóst að við þurfum að spóla til baka og taka aftur upp þær vinnureglur og þau sóttvarnarviðmið sem höfð voru í heiðri snemma síðasta vor.“

Ásthildur segir að fjöldatakmarkanir verði virtar í Sundlaug Akureyrar og á söfnum bæjarins, sem og tveggja metra reglan, eftir því sem kostur er.

„Eins og síðasta vor verðum við líka að ástunda persónulegar sóttvarnir í hvívetna. Þegar upp er staðið skiptir líklega mestu máli að hvert og eitt okkar gæti fyllstu varúðar því við erum öll almannavarnir. Starfsfólk Akureyrarbæjar stóð sig frábærlega síðasta vor og ég finn það á því fólki sem ég hef hitt síðan í gær að það ætla allir að leggja sitt af mörkum til að kveða niður þennan fjanda sem á okkur herjar,“ segir Ásthildur.

Sambíó

UMMÆLI