NTC

Hóf leiklistarferil á örorku: „Þessi viðbót við mitt líf hefur verið ákaflega skemmtileg og fjölbreytt“Helen í tónlistarmyndbandi við lagið Think about things

Hóf leiklistarferil á örorku: „Þessi viðbót við mitt líf hefur verið ákaflega skemmtileg og fjölbreytt“

Margir Akureyringar kannast við andlit Helenar Símonarson, áður Gunnarsdóttir, en hún stóð vaktina í Sundlaug Akureyrar í 13 ár áður en hún flutti suður árið 2019. Síðan þá hefur líf hennar tekið töluverðum breytingum og flestir Íslendingar hafa nú séð henni bregða fyrir í auglýsingum, tónlistarmyndböndum, sjónvarpsþáttum og bíómyndum.

Þegar Helen flutti frá Akureyri var hún orðin öryrki og þurfti að hugsa líf sitt upp á nýtt. Hún keypti sér litla íbúð í Reykjavík og fór að skoða hvað hún gæti gert þrátt fyrir örorku.

„Mér fannst ég geta unnið að einhverju leyti þrátt fyrir örorkuna og var með ýmsar hugmyndir í gangi,“ segir Helen í spjalli við Kaffið.is.

Vinkona Helenar bauð henni í hóp fyrir aukaleikara í október árið 2019 og hlutirnir gerðust hratt eftir það. „Ég skoðaði þessa síðu og fannst þetta alveg út í hött fyrir mig, þetta væri augljóslega fyrir vant fólk. Þegar ég var alveg að fara að hætta við þá sé ég auglýst eftir aukaleikurum í tónlistarmyndband. Ég lifnaði við og var fljót að hugsa , ég er dansfífl, svo þetta er örugglega eitthvað fyrir mig. Ég ákveð að tjékka á þessu og sæki um.“

„Mér til mikillar undrunar fæ ég hlutverk. Það var ekki tekið eitt einasta dansspor í þessu vídeói. Nema þegar við vorum í pásu og dunduðum okkur við að dansa undir stjórn einnar úr hópnum. Þarna var mjög vel tekið á móti mér af hinum aukaleikurunum og mér sagt hvar ég ætti að staðsetja mig á fésbók og ég peppuð upp á allan hátt.“

Helen fékk hlutverk í áramótaskaupinu sama ár og lék einnig í erlendri kvikmynd sem heitir Everything in the end. Í kjölfarið lék hún í tónlistarmyndbandi Daða og Gagnamagnsins fyrir lagið Think about things sem yfir 39 milljónir manns hafa nú horft á á Youtube.

Síðan þá hefur Helen leikið í fleiri tónlistarmyndböndum, sjónvarpsþáttum á borð við Júrógarðinn, Verbúðina, Stella Blómkvist og Venjulegt fólk og bíómyndum á borð við Leynilögguna og The Northman.

„Ég hef sko alltaf jafn gaman að þessu og maður alltaf að kynnast nýju fólki. Svo er gaman að því líka þegar maður er farinn að heilsa og jafnvel faðma þá sem eru í tökunum með manni. Þessi viðbót við mitt líf hefur verið ákaflega skemmtileg og fjölbreytt ásamt því að vera krefjandi og mikil áskorun.“

Helen í tónlistarmyndbandi Hatara við lagið Engin Miskunn

Hún segir að eitt skemmtilegasta verkefni sem hún hafi tekið þátt í hingað til hafi verið auglýsing fyrir Reykjavíkurborg.

„Þar lék ég Ömmu sem fer til borgarinnar með afa til að eiga góðar stundir. Það skvettist úr kampavínsglasi á ömmu og hún skellir þá úr sínu glasi framan í afa og manar hann í koddaslag , síðan endar sá gamli hálfnakinn úti á svölum á Hótel Borg og gamla dundar við að taka myndir af honum þar,“ segir Helen.

Nýlega lék Helen í páskaauglýsingu Hagkaupa og í væntanlegri auglýsingu Krabbameinsfélagsins. Hún segir að framundan hjá sér sé vonandi eitthvað spennandi.

„Annars er búið að vara mann við að þegar maður er orðinn svona áberandi þá getur maður verið frystur í einhvern tíma en ég vona nú að þess þurfi ekki.“

„Við sem erum í þessu hjálpum alltaf til þegar krakkar úr Kvikmyndaskólanum og þau sem eru í námi eru að útskrifast. Fyrir þessa einstaklinga vinnum við alltaf frítt,“ segir Helen.

Það er því sannarlega nóg að gera hjá Helen sem verður 69 ára á þessu ári. Hún segir að oftar en ekki vanti henni einn til tvo daga í viðbót í vikuna síðan að hún „hætti að vinna“.

„Sem eldri borgari gæti lífið varla verið skemmtilegra. Ég  er reikimeistari, naglafræðingur, ég spila bridge, er algert dansfífl og svo er það áhugaleikurinn. Það eina sem er til vandræða er að ég hefi ekki mikinn tíma með börnum og barnabörnum.  En ég reyni að halda þeim sið að bjóða í súpu eða eitthvað , um það bil mánaðarlega, svo að við hittumst sem flest.“

Sambíó

UMMÆLI