Rannveig Elíasdóttir skrifar
Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum. Mikilvægt er að þeim líði vel og geti blómstrað í lífi og starfi. Því er það eitt af grundvallar stefnumálum Samfylkingarinnar að leggja áherslu á málefni barna, einkum og sér í lagi þeirra sem þurfa á stuðningi að halda.
Akureyrarbær hefur nú þegar hlotið viðurkenningu sem barnvænt samfélag með því að innleiða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu og starfsemi bæjarins, með hagsmuni allra barna og ungmenna sveitarfélagsins að leiðarljósi. Þeirri vinnu er þó engan vegin lokið og margt sem þarf að bæta. Eitt af því er að stuðla að bættri þjónustu við börn og ungmenni sem glíma við geðræn vandamál og aðra andlega vanlíðan. Þar þarf að gera betur. Biðlistar í sálfræðilegar og námslegar greiningar á vegum bæjarins eru langir og aðgengi að meðferð takmarkað.
Sálfræðiþjónusta hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum er dýr og því ekki allir sem hafa kost á að nýta sér þá þjónustu. HSN hefur þó að einhverju leiti brúað bilið en þörfin er samt sem áður mun meiri en sú sem í boði er.
Geðheilsa grunnur að almennu heilbrigði. Ef sá grunnur stendur höllum fæti er erfitt að byggja ofan á hann. Barninu fer að ganga ver námslega, félagslega og á endanum líkamlega. Þess vegna er það svo mikilvægt að við tryggjum úrræði fyrir þau börn sem líður ekki vel.
Samfylkingin vill tryggja stöðugildi námsráðgjafa í hlutfalli við nemendafjölda sem og að efla aðra stoðþjónustu við skólana. Álag á kennara er mikið og þeir hafa oft á tíðum ekki bolmagn til að sinna þeim sem þurfa aukinn stuðning nema á kostnað hinna nemendanna. Þar þurfum við aukinn mannskap inn í skólann. Þá viljum við einnig vinna að fullum þunga í að fyrirbyggja einelti og viðbragðsáætlanir.
Með þessum aðgerðum erum við ekki bara að bæta líðan nemenda heldur einnig að móta sterkari samfélagsþegna sem skilar sér margfalt til baka.
Rannveig Elíasdóttir er hjúkrunarfræðingur og í 7. sæti Samfylkingarinnar á Akureyri
UMMÆLI