Ákveðið hefur verið að færa hluta af starfsemi Heilsugæslunnar á Akureyri tímabundið í leiguhúsnæði sem áður hýsti sjónvarpsstöðina N4. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Þar segir að enn sé verið að meta umfang myglu- og rakaskemmda sem greindust í húsnæði heilsugæslunnar fyrir rúmum mánuði síðan. Nokkrir starfsmenn höfðu þá fundið til óþæginda sem þeir röktu til húsnæðisins.
Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, staðfestir í samtali við RÚV að hluti starfseminnar, sálfræðiþjónusta og geðheilsuteymi, verði fluttur þangað sem N4 var áður.
„Geðheilsuteymið hefur verið í húsnæðið þar sem voru gömlu læknastofur Akureyrar þannig það er auðvelt að flytja þangað svona klíníska starfsemi“, segir Jón Helgi. í samtali við RÚV.
Ekki hafa verið leigð út fleiri rými til þess að hýsa þjónustuna enn sem komið er en enn er unnið að myglurannsóknum á húsinu. Sem stendur lítur út fyrir að hluti þess verði nothæfur á meðan viðgerðir standa yfir.
Fólk sem leitar á Heilsugæsluna má búast við einhverju raski á starfseminni, en Jón Helgi segir þau reyna eftir fremsta megni að halda henni eðlilegri.
UMMÆLI