Gæludýr.is

Hljóp 170 kílómetra á rúmum sólarhring

Langhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson lenti í 32. sæti í einu frægasta fjallahlaupi heims

Langhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson hafnaði í 32. sæti í einu frægasta fjallahlaupi heims, Ultra-Trail du Mont-Blanc í Frakklandi. Alls hóf 2.581 hlaupari keppni í þessu rúmlega 170 km hlaupi þar sem hækkunin er í kringum 10 km. Þor­berg­ur Ingi hafnaði í 32. sæti og hljóp þetta á rúmum sólarhring, eða 25 klukkustundum, 57 mínútum og 11 sekúndum. Þetta er í fyrsta skipti sem hann tek­ur þátt í svo löngu hlaupi en í fyrra keppti hann í öðru hlaupi kringum Mont Blanc, sem er 101 kílómetri með 6.100 metra hækkun og hafnaði þá í 6. sæti af 2.150 keppendum. Þorbergur lauk keppninni í fyrra á 11 klukkustundum, 14 mínútum og 22 sekúndum.

Bitinn af hundi í miðju hlaupi
Þorbergur lenti í því óhappi í Mont Blanc hlaupinu í fyrra að vera bitinn af hundi þegar hann var rúmlega hálfnaður. Hann þurfti því á læknishjálp að halda sem tafði hann um nokkrar mínútur og missti nokkra hlaupara fram úr sér á meðan. Hann „beit þó frá sér“ og vann sig upp í 6. sætið. Þetta var fyrsta skiptið sem eitthvað þessu líkt hefur komið fyrir Þorberg og vonandi það síðasta.

„Þetta var bara mikil óheppni, ég var bara að hlaupa í litlu þorpi í gegnum þrönga íbúðagötu og pældi ekkert í þessum hundi. Svo hoppar hann í fótinn á mér og glefsar í mig. En þetta er bara lífsreynsla. Þetta dró aðeins úr mér en allt í lagi, ég fann ekkert til eftir þetta, ég fann bara miklu meira til alls staðar annars staðar,“ segir Þorbergur og hlær. 

„Það þýðir ekkert að fara þetta bara á sykri og orkudufti“
Í samanburði segir Þorbergur hlaupið í ár hafa verið mun erfiðara, enda mun lengra. „Það var töluvert erfiðara að sofa ekkert. Þetta er svo langur tími og það er svo bugandi að vera svona lengi á fótum. Svo komst ég líka að því að það þýðir ekkert að fara þetta bara á sykri, orkudufti og súkkulaði. Þú verður bara að borða. Ég komst að því eftir fjórtán tíma, maður þarf bara mat til að „fúnkera“ í svona langan tíma,“ segir Þorbergur en eftir að hafa verið búinn með um 100 km af hlaupinu lenti hann í því að geta ekki tekið inn meiri orku, maginn vildi ekki taka við henni.

Hljóp í nokkra klukkutíma án þess að borða neitt
„Maginn sagði bara nei þannig að ég hljóp alveg í nokkra klukkutíma án þess að taka neina orku. Þá varð ég alveg tómur. Ég hefði þurft að stoppa og borða, sem ég gerði ekki, þannig að eftir um 140 km þá sögðu fæturnir bara stopp. Ég var alveg stífur og hreyfðist hvorki upp brekkur né niður,“ segir Þorbergur um hvað hafi reynst honum erfiðast í hlaupinu en þetta var frumraun hans í jafn löngu hlaupi og þessu.

Ætlaði að gefast upp eftir 140 kílómetra
Þorbergur lýsir því hvernig líkaminn gaf sig eftir um 140 kílómetra, þegar hann átti aðeins 30 km eftir í mark. Þá hafði hann ekki náð að næra sig í nokkra klukkutíma og ætlaði hreinlega að gefast upp. „Þarna bara gafst ég upp. Það er ekki þess virði að þjást svona, hugsaði ég. En ég er með svo mikið af góðu fólki í kringum mig. Það hvatti mig áfram, hamaðist í mér, ég fékk að leggjast niður í smástund, sofnaði í smástund og svo reif ég mig upp,“ segir Þorbergur en hann segir að það eina sem hvatti hann áfram hafi verið að klára þetta fyrir allan hópinn sem fylgdi honum í markið. Venjulega er hann með í kringum 2-4 með sér á mótum sem þessum en í þetta skiptið fylgdi honum 17 manns, bæði fjölskylda og vinir. „Ég hugsaði að ég væri ekki bara að gera þetta fyrir sjálfan mig. Ég var að gera þetta fyrir allan hópinn og þá varð markmiðið allt í einu bara það. Ég var alveg til í að gera þetta fyrir þau öll en ekkert endilega bara til að pína sjálfan mig.“

Óvíst hvort Þorbergur gæti hlaupið vegna tognunar 6 dögum fyrir hlaup
Þorbergur lenti í því sex dögum fyrir hlaup að togna á kálfa, sem getur ekki talist heppilegt fyrir 170 km hlaupakeppni. Lukkulega var bróðir hans með í för sem er sjúkraþjálfari og meðhöndlaði meiðslin og „teipaði“ Þorberg fyrir keppnina. „Það var alveg óvíst hvort ég gæti hlaupið yfir höfuð þannig að ég var oft við það að hætta í byrjun hlaupsins en svo komst ég bara yfir þetta. Ég var með tvo hjúkrunarfræðinga og sjúkraþjálfara með mér í hópnum og fleiri reynslubolta sem er alveg nauðsynlegt. Þetta reynir líka svo mikið á andlegu hliðina, ekki bara þá líkamlegu, maður verður svo bugaður þegar þetta er svona langur tími þannig að það er gott að hafa gott fólk með sér.“

Þrjár vikur að jafna sig
Aðspurður hvernig fæturnir séu eftir hlaupið segist Þorbergur ekki vera góður. „Já, já, ég er mjög slæmur,“ segir Þorbergur og hlær. „Samt miklu betri en ég þorði að vona eftir svona langt hlaup. En þetta kemur í bakið á manni seinna, maður verður svo þreyttur eftir á. Það er djúp þreyta sem situr í manni í langan tíma á eftir, ég er allavega þrjár vikur að jafna mig.“

Ætlar að gera betur næst
Þorbergur hefur keppt í fjölmörgum hlaupum en hefur síðustu ár frekar tekið þátt í svo kölluðum Ultra-hlaupum, sem sagt hlaupum sem eru lengri en maraþonhlaup. Þá hefur hann keppt a.m.k. þrisvar sinnum í 100 km hlaupum, einu sinni í 85 km hlaupi og mörgum 50 og 40 km hlaupum. Eins og áður sagði er þetta lengsta hlaup sem Þorbergur hefur tekið þátt í hingað til.

„Þó að þetta hafi gengið út á við mjög vel og verið fínn árangur þá veit ég sjálfur að ég get gert miklu betur. Það þarf bara allt að ganga upp og það er alls ekki sjálfgefið. Þetta var frumraun mín í svona rosalöngu hlaupi og ég er bara mjög sáttur við að hafa klárað, miðað við hvernig ástandið var á mér.“

En muntu aftur taka þátt í svona löngu hlaupi?
„Já, ekki spurning.“

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó