Hljómsveitin Best Fyrir snýr aftur eftir 15 ára langa pásuBest Fyrir samankomnir á árinu eftir margra ára pásu

Hljómsveitin Best Fyrir snýr aftur eftir 15 ára langa pásu

Akureyrska Þórs-bandið Best Fyrir gaf út lagið Háflug á dögunum. Þetta er fyrsta lag hljómsveitarinnar í 15 ár og er að finna á bæði Spotify og YouTube.

Lagið, sem er eftir Elmar Sindra Eiríksson og Brynjar Davíðsson var tekið upp í Hofi af Hauki Pálmasyni. Binni D syngur, Elmar E plokkar bassa, Bergþór Rúnar Friðriksson leikur á gítara og Pétur Guðjónsson (fyrsti KA-maður í sögu bandsins) lemur húðir.

Í tilefni 30 ára tilveru Best Fyrir árið 2025 er stefnt að útgáfu fleiri laga sem verða á þriðju og síðustu breiðskífu bandsins. 

Sagan

Best Fyrir árið 1995.

Best Fyrir var stofnuð í janúar 1995 í Þorpinu. Þá hét hljómsveitin Getuleysi, sem var lýsandi fyrir færni meðlimi. Bandið samanstóð af trommaranum- og söngvaranum Brynjari Davíðssyni, bassaleikaranum Elmari Sindra Eiríkssyni og gítarleikaranum og söngvaranum Kristjáni Kristjánssyni eða Kidda hvíta (kvikmyndagerðarmanni). Á fyrstu æfingu í kjallara í Lönguhlíðinni var rennt í Dylan-slagarann Lay lady lay og Egó-smellinn Stórir strákar fá raflost. Þar sem ekkert gekk að æfa lögin var nafninu breytt í Vonleysi. En það gerði náttúrulega ekkert til að stækka aðdáendahópinn. Nafnið Best Fyrir varð síðan fyrir valinu þegar meðlimir reyndu sig á bar- og ballmarkaðnum og í eigin tónsmíðum. Þá höfðu Kristján Elí Örnólfsson sólógítarleikari (Gimp og Toy Machine), Elmar Steindórsson trommari og Jens Ólafsson söngvari- og hryngítarleikari (Gimp, Toy Machine og Brain Police) bæst við bandið. Vorið 1997 skildu leiðir og Best Fyrir lagðist í dvala.

Árið 2002 dustuðu Binni D og Elmar E rykið af Best Fyrir og gáfu út Lífið er aðeins…þessar stundir vorið 2003 í samstarfi við Atla Má Rúnarsson trymbil Helga og hljóðfæraleikaranna.

Næst var blásið til sóknar árið 2008. Þá sem áður voru Binni D og Elmar E við stýrið. Á augnabliki…lokar þú augunum kom út árið 2009 og var Best Fyrir þá skipuð Binna D, Elmari E, Bergþóri Rúnari Friðrikssyni, Sverri Frey Þorleifssyni, Hans Friðriki Hilaríus Guðmundssyni og Guðmundi Aðalsteini Pálmasyni. Á plötunni var gnótt gestasöngvara. Þetta voru Jónína Björk Stefánsdóttir, Matthías Matthíasson, Helgi Þórsson, Rúnar Þór Pétursson og Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Að auki söng Rúnar Júlíusson lagið ,,Ég þrái að lifa“. Lagið reyndist síðasta lagið sem Rúnar söng á stórkostlegum ferli sínum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó