Hlíð er 55 ára í dag

Hlíð hefur nú staðið við Austurbrún í 55 ár. Mynd: akureyri.net.

Í dag eru 55 ár liðin frá því að öldrunarheimilið Hlíð var vígt, en fyrsti áfangi byggingarinnar var vígður á þessum degi árið 1962.

Þá var tekinn í notkun sá hluti sem í dag hýsir dagþjálfun, smiðjur og karlaloft. Húsið sem ætlað var 28 íbúum var byggt með stuðningi Kvenfélagsins Framtíðar og af Akureyrarbæ, en fyrstu íbúarnir fluttu inn 3. nóvember 1962.

Einstakir hlutar bygginga í Hlíð eru svo teknir í notkun á næstu árum og áratugum. Sá hluti sem snýr að Þórunnarstræti og hýsir Birki-, Lerki, Reyni- og Skógarhlíðar var tekin í notkun árið 1970 og 1974. Næstu áfangar voru viðbygging fyrir þvottahús og mötuneyti og bygging raðhúsaíbúða, en þessum áföngum lauk árið 1980. Í yfirliti um sögu Hlíðar sem Björn Þorleifsson tók saman og birtist m.a. í Vikudegi 3. nóv. 1992, kemur fram að þá voru 190 íbúar í Hlíð og Skjaldarvík en biðlisti upp á 240 manns.

Nýjasti áfangi í byggingum Hlíðar í Austurbyggðinni, er svo frá 2006 en þar eru Eini-, Greni-, Aspar,- og Beykihlíð ásamt eldhúsi og matsal. Á árunum 2006 til 2010 var unnið að endurbótum í tengslum við eldhús og borðstofur í elstu hlutum Hlíðar, m.a. út frá áherslum Eden hugmyndafræðinnar um að breyta stofnun í heimili. Árið 2012 var Lögmannshlíð svo tekin í notkun en í september n.k. er 5 ára afmæli þess heimilis.

Í tilefni dagsins verður fyrsta kráarkvöld haustsins haldið kl. 18 þar sem hljómsveitin Hlíðin mín fríða heldur uppi fjörinu. Einnig er efnt til sýninga á gömlu myndefni og umfjöllunum um sögu Hlíðar hjá iðju- og félagsstarfinu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó