Hlaupadeild UFA 20 ára í dag

Hlaupadeild UFA 20 ára í dag

Í dag, 20. mars 2023, eru liðin 20 ár frá stofnun hlaupadeildar UFA á Akureyri. Markmið deildarinnar hefur frá upphafi verið að auka hag langhlaupa í bæjarfélaginu, standa fyrir æfingum og hlaupanámskeiðum og aðstoða við framkvæmd almenningshlaupa á vegum UFA.

Fyrstu árin var enginn þjálfari hjá félaginu en opnar hlaupaæfingar voru þrisvar í viku. Iðkendur voru fáir og nýliðun lítil. Einn og einn týndist þó inn oft í kjölfar hlaupanámskeiða sem haldin voru. Vorið 2013 sameinaðist hlaupadeildin hlaupahópnum Eyrarskokki sem hafði verið starfræktur við líkamsræktarstöðina Átak um nokkurt skeið og frá þeim tíma hafa félagsmenn greitt árgjald og þjálfarar hafa sett upp prógrömm og fylgt þeim eftir. 

„Eftir þessa sameiningu má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Hópurinn hefur stækkað jafnt og þétt og í dag eru félagsmenn yfir 100, hlauparar af öllum stærðum og gerðum, áhugaskokkarar, götuhlauparar, últrahlauparar, fólk sem notar hlaup sem sína líkamsrækt og fólk sem er í fremstu röð á Íslandi í hlaupum,“ segir í tilkynningu á vef UFA.

„Stór þáttur í starfsemi deildarinnar frá upphafi hefur verið hlaupahald. Áður en deildin var stofnuð hafði UFA haldið þrjú hlaup á ári, 1. maí hlaup, Akureyrarhlaup og Gamlárshlaup. Hlaupadeildin hefur komið að þessum viðburðum frá stofnun hennar og bætt við nýjum hlaupum, s.s. Vetrarhlaupum sem haldin eru mánaðarlega yfir veturinn, hausthlaupi, víðavangshlaupum og fjallahlaupinu Súlur vertical sem í dag er haldið af sjálfstæðu félagi sem er þó nátengt UFA Eyrarskokki. Hafa Eyrarskokkarar borið veg og vanda af því að byggja það hlaup upp og aðstoða við framkvæmd þess. Á 20 árum má segja að UFA Eyrarskokk hafi slitið barnsskónum og sé nú orðin fullvaxta einstaklingur. Til hefur orðið sterkt félag sem hyggur á enn frekari uppbyggingu hlaupastarfs á Akureyri,“ segir í tilkynningunni.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó