Sveitastjórn Eyjafjarðarsveitar vill bregðast við hættum sem gangandi og hjólandi fólk upplifir á leið sinni milli Akureyrar og Hrafnagils með því að leggja sjö kílómetra langan hjólreiða- og göngustíg milli staðanna. Nauðsynlegt sé að ná hjólandi og gangandi umferð af þjóðveginum.
Mikil bílaumferð er á milli Akureyrar og Hrafnagils en þeir sem fara hjólandi og gangandi verða að láta sér það duga að vera úti í kanti með umferðina sér við hlið.
Ólafur Rúnar Ólafsson segir þetta mikið öryggisspursmál fyrir íbúa Eyjafjarðarsveitar og Akureyrar í samtali við RÚV í gær.
Áætlaður kostnaður við stíginn er 160 milljónir króna og Ólafur segir að rætt hafi verið við Vegagerðina og Akureyrarbæ um að taka þátt í verkefninu. Hugmyndin er sú að stígurinn sameinist göngustígnum sem var lagður meðfram Drottningarbraut á Akureyri á síðasta ári.
UMMÆLI