Hjólreiðafólks ársins 2020 hjá HFA verðlaunað

Hjólreiðafólks ársins 2020 hjá HFA verðlaunað

Stjórn HFA valdi á dögunum Hjólreiðafólk ársins, en þeir sem náðu besta árangrinum í hjólakeppnum ársins voru tilnefndir. Að þessu sinni var Jónas Stefánsson valinn Fjallahjólamaður ársins, Emilia Niewada var valin Fjallahjólakona ársins, Tryggvi Kristjánsson var valinn Götuhjólreiðamaður ársins og Hafdís Sigurðardóttir var valin Götuhjólreiðakona ársins.

Tryggvi Kristjánsson – Götuhjólamaður ársins

Tryggvi Kristjánsson varð bikarmeistari í B-flokki í götuhjólreiðum árið 2020. Tryggvi gerði sér lítið fyrir og sigraði í þremur af fjórum bikarmótum sumarsins, sem skilaði sér í mjög öruggum sigri í þessum flokki. Tryggvi keppti einnig 4. criterium móti sumarsins sem var haldið á Akureyri og sigraði þar í B-flokki. Hann hefur verið mikil fyrirmynd annarra hjólara á Akureyri og verið einn fremsti þjálfarinn á sviði hjólreiða þar í bæ undanfarin ár. Margir HFA-liðar hafa verið á námskeiðum yfir vetrartímann á watta-hjólum hjá Tryggva á líkamsræktarstöðinni Bjargi og notið góðs af ráðum hans og hvatningu.

Hafdís Sigurðardóttir – Götuhjólakona ársin

Hafdís Sigurðardóttir varð í þriðja sæti í Elite flokki í götuhjólreiðum árið 2020 og sömuleiðis varð hún þriðja á Íslandsmótinu í sömu grein. Í bikarmótaröðinni varð hún þrisvar sinnum í öðru sæti og munaði aðeins tveimur stigum á henni og Bríeti Kristý sem varð í öðru sæti. Árangurinn í sumar og sömuleiðis undanfarin ár, skilaði sér í mjög verðskulduðu landsliðssæti. Hafdís fór á vegum HRÍ til Imola og keppti þar á heimsmeistaramótinu í götuhjólreiðum. Þar fetaði hún, ásamt Bríeti, í fótspor Ágústu Eddu Björnsdóttur sem keppti fyrst íslenskra kvenna á þessu móti í fyrra. Því má segja að Hafdís sé, ásamt þeim hinum tveimur, brautryðjandi í framþróun götuhjólreiða sem íþróttagreinar á Íslandi. Hún hefur jafnframt staðið í fararbroddi þróunar greinarinnar á Akureyri og á einna stærstan þátt í því að sífellt fleiri konur hafa byrjað að hjóla á götuhjólum á Akureyri. Þar hefur hún starfað á vegum HFA sem þjálfari, staðið fyrir eigin námskeiðum og sömuleiðis unnið sem hjólaþjálfari á veturna á líkamsræktarstöðinni Bjargi.

Jónas Stefánsson – Fjallahjólamaður ársins

Jónas Stefánsson sigraði í Enduro Akureyri árið 2020, en þetta var í fyrsta skipti sem þetta mót gefur sæti í Enduro World Series sem er sterkasta mótaröð í heimi í flokki enduro fjallahjólreiða. Þá sigraði Jónas einnig Haust Enduromót Tinds sem haldið var á höfuðborgarsvæðinu, en þetta voru einu tvö mótin sem haldin voru í enduro fjallahjólreiðum árið 2020. Þá varð Jónas annar á stigamóti í fjallabruni í Hlíðarfjalli í júlí í Elite flokki karla. Jónas hefur verið leiðandi í fjallahjólreiðum á Akureyri í langan tíma og er í fámennum hópi Íslendinga sem hefur keppt á EWS, en hann fékk keppnisrétt í móti sem fór fram í Ainsa á Spáni árið 2018. Í sumar stóð hann fyrir afar vel heppnuðum fjallahjólanámskeiðum og á risastóran þátt í því að Akureyrarbær er orðinn einn þekktasti áfangastaður meðal fjallahjólreiðamanna á Íslandi.

Emilia Niewada – Fjallahjólakona ársins

Emelia Niewada varð Íslandsmeistari í fjallabruni í Elite flokki kvenna árið 2020 og sigraði jafnframt í eina bikarmótinu sem hún tók þátt í, í Hlíðarfjalli á Hjólreiðahátíð Greifans. Sömu helgi keppti hún í Enduro Akureyri og varð þar í þriðja sæti. Emilia er sexfaldur Íslandsmeistari í fjallabruni, en hún hefur sigrað mótið sex síðustu ár og því einhver allra besta fjallahjólreiðakona sem Ísland hefur átt. Þá hefur hún átt góðu gengi að fagna í enduro mótum síðustu ár. Emilia hefur þjálfað börn og unglinga undanfarin tvö sumur á fjallahjólanámskeiðum HFA og hlotið mikið lof fyrir. Þá er hún einn stofnenda hópsins KvEnduro, en þar hittast konur til að fara saman í fjallahjólreiðatúra og allir eru velkomnir með. Það má því með sanni segja að hún sé ein helsta driffjöðurinn í því að efla fjallhjólreiðar á Akureyri og þá sérstaklega konur sem vilja prófa íþróttina, og hún á um leið risastóra þátt í því að Akureyrarbær er orðinn einn þekktasti áfangastaður með fjallahjólara á Íslandi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó