Hin lævísa leti

Hin lævísa leti

Inga Dagný Eydal skrifar

Letin hefur þvælst heilmikið fyrir mér um ævina. Ekki það að ég sé neitt sérstaklega löt (eða það held ég ekki) en ég hef alltaf þurft að velta þessu hugtaki sérstaklega mikið fyrir mér. Leti er óáþreifanleg og ósýnileg en eins og ýmislegt annað þvíumlíkt í lífinu er okkur ætlað að trúa því að hún sé til. Hún er svolítið eins og lítill og óþægur ormur í huga okkar, ormur sem hvíslar að okkur að nú sé best að gera sem allra minnst. Svona lævís lítill gaur og mjög illur, kannski hinn eiginlegi letipúki, því að við vitum jú öll að það er fátt verra en að vera latur.

Við vorum alin upp og ólumst upp við það að lati Geir hafi dáið úr þorsta vegna leti, lata stelpan hafi fengið sína refsingu og letin jafngildi ómennsku og það hlýtur að vera afar slæmt að glata mennskunni sinni. Letin er talin ein af dauðasyndunum sjö og það að láta eftir sér leti verður til þess að við njótum ekki náðar guðs. Ekki er nú undarlegt að foreldrum okkar hafi verið mikið í mun að við yrðum ekki löt, heldur dugleg.

Dugnaður er annað hugtak sem er ótrúlega loðið og illa skilgreint þrátt fyrir að þessu hugtaki hafi verið mikið hampað og sé oft talið vera upphaf allrar velgengni og hamingju í tilverunni. Reyndar er dugnaður ekki ein af höfuðdyggðunum kannski sem betur fer en þó mætti halda það, miðað við hversu mikils metinn dugnaður er í íslensku samfélagi. Þó getur dugnaður úr hófi fram verið ákaflega hættulegur því þótt að það sé töff og kúl að þurfa ekki að sofa eða hvíla sigþá er það yfirleitt slæmt fyrir heilsuna og jafnvel banvænt.Okkur er því nokkur vandi á höndum að finna meðalveg á milli þessarar miklu syndar, letinnar, sem virðist búa innra með okkur öllum ásamt græðginni, öfundinni, drambinu og öllum þeim systrum, og svo hins gulli slegna og eftirsóknarverða titils, -að vera duglegur. Duglegur er litli drengurinn sem ekki grætur þótt hann detti og meiði sig og duglegur er sá sem gerir það gott í bissness, hvernig svo sem hann fer að því.

Þetta getur átt sér sögulegar skýringar, það var jú sérlega gott að búa til höfuðsynd úr letinni þegar menn voru upp til hópa þrælar eða leiguliðar og líklega eimir af því enn. Það voru aðalsmenn og konungar sem gátu notið þess munaðar að láta eftir sér letina en aðrir ekki.Maðurinn minn var orðinn ákaflega þreyttur á togstreitunni innra með konunni sinni sem þrátt fyrir að hafa örmagnast sökum mikils álags, var enn að sveiflast á milli þess að vera löt eða dugleg, hann tók af skarið og bannaði þessi tvö orð á okkar heimili. Sem var besta og skynsamlegasta bann sem ég hef orðið fyrir á ævinni. Ennþá þarf hann reyndar af og til að minna á bannið því að það er svo vandlega inngróið að vera ýmist latur eða duglegur, að vera allt eða ekkert. En margar gengnar kynslóðir hvísla enn þessum öfgum í eyrun á okkur, með ágætum árangri.

Er þá ekkert til sem heitir að vera latur? Eða að vera duglegur? Jú vissulega og leti er áreiðanlega dauðasynd. En ég er ekki að tala um leti í hefðbundinni merkingu. Ég trúi því alls ekki að það sé dauðasynd að horfa út um gluggann og hugleiða eða lesa góða bók í stað þess að skúra og skrúbba. Ég trúi því heldur ekki að það sé synd að vinna stuttan vinnudag og njóta þess að vera með fólkinu sínu og eiga aðeins minna af veraldlegum gæðum.Ég hinsvegar held að letin sem felst í því að nenna ekki að taka réttar og góðar ákvarðanir sé löstur. Ég held að það sé leti að taka auðveldu leiðina hugarfarslega, synda um í þægilegri meðalmennskunni og hafa ekki dug í sér til að standa með sannfæringu sinni. Það er leti að rísa ekki upp gegn óréttlæti heimsins og láta í sér heyra. Og ég geri mig oft seka um slíka leti og það gerum við áreiðanlega öll. Það er kannski mesti dugnaður sem við getum sýnt ef við segjum þessari leti stríð á hendur. Á sama hátt erum við líka dugleg þegar við temjum okkur víðsýni og umburðarlyndi, það krefst hugarfarsvinnu, það krefst þess að spyrja spurninga. Það er dugnaður sem mig langar til að innræta börnum og barnabörnum, skítt með ryk í hornum eða óslegið gras.

Greinin birtist fyrst á vef Ingu Dagnýjar https://raedaogrit.com/

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó