Hildur Þóra Magnúsdóttir, verslunarstjóri í Krambúðinni við Borgarbraut á Akureyri, útskrifaðist nýverið með Fagbréf úr Fagnámi í verslun og þjónustu, auk stúdentsprófs, frá Verzlunarskóla Íslands. Hún er þar með ein af níu nemendum sem hafa lokið fagnáminu frá því að námslínan var sett á laggirnar í janúar 2020.
„Námið var mikil hvatning fyrir mig í starfi og mér fannst rosalega gagnlegt að taka þetta samhliða mínu starfi sem verlsunarstjóri í Krambúðinni hérna á Akureyri. Ég hef starfað hjá Samkaupum síðan árið 2006 svo það er frábært að geta haldið áfram að þróast í starfi með þessum hætti,“ segir Hildur Þóra.
Auk Hildar Þóru útskrifaðist samstarfssystir hennar, Ríkey Jónsdóttir, verslunarstjóri í Kjörbúðinni á Fáskrúðsfirði, úr sama námi og með stúdentspróf.
Um ræðir nýja námslínu sem kennd er við Verzlunarskóla Íslands, þar sem starfsfólki samstarfsfyrirtækja skólans býðst að vera þátttakendur í námi sem byggir á að styrkja og efla verslunarstarfsmenn. Eru þær Hildur Þóra og Ríkey 8. og 9. Neminn til að útskrifast úr námslínunni, en allir þeir nemendur sem útskrifast hafa úr náminu hingað til eiga það sammerkt að vera starfsmenn Samkaupa.
„Fagnámið er frábært tækifæri fyrir starfsmenn í verslun til að auka virði sitt til framtíðar. Vinnumarkaðurinn er í stöðugri þróun og áherslur sífellt að breytast. Að okkar mati er gríðarlega mikilvægt að fyrirtækin hugi vel að þessu og bjóði sínu starfsfólki upp á réttu tækifærin og aðstæðurnar, með það fyrir augum að auka þekkingu hæfni innan fyrirtækisins. Þá er mikilvægt að starfsfólk sjái þá möguleika sem í boði eru og að þeir veki með því áhuga. Þannig er hægt að greiða aðgengi fólks til að þróast í starfi, sem svo skilar sér í aukinni starfsánægju sem er auðvitað lykillinn að öllu, enda er fyrirtæki aldrei öflugra en akkúrat fólkið sem þar vinnur. Við erum því ákaflega stolt af okkar fólki og hlökkum til að halda áfram að fylgjast með þeim Hildi Þóru og Ríkey blómstra í sínum störfum auk þess sem þær eru frábær hvatning fyrir aðra starfsmenn Samkaupa,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa.
Námslínan hefur verið á boðstólnum síðan snemma árs 2020, en um ræðir samstarfsverkefni milli Verzlunarskóla Íslands, VR, SVÞ, Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Mímis, auk þriggja fyrirtækja í verslun, Samkaupa, Lyfja og Húsasmiðjunnar.
UMMÆLI