Hið góða spik!

Inga Dagný Eydal skrifar:

Spiki sálarinnar þarf að safna með hugsun, viðhorfi og réttum ákvörðunum í lífinu. Og verða feitur. Hamingjuspik sálarinnar ver gegn skakkaföllum og er verndarvættur manneskjunnar. Líkamlega feitur maður verður ekki grannur í einu vetfangi. Eins hverfur spik sálarinnar ekki á hverjum degi. Hamingjusamur maður verður ekki auðveldlega óhamingjusamur. Hann verður dapur um stundarsakir, leiður og óánægður, en hann fellur ekki. Sál hans tapar spiki en verður ekki berskjölduð.”Svona mælir hann Gunnar Hersveinn heimspekingur og er þarna sem svo oft ótrúlega hittinn á fínar líkingar sem draga fram kjarna málsins og sem eru á mannamáli og því skiljanlegar öllum. Í það minnsta fannst mér, þegar ég las þessi orð í fyrsta sinn, það vera ótrúlega skemmtileg tilhugsun að þarna væri komið spik sem væri jákvætt að safna og því meira því betra.

Hamingjuspikið er viðhorf til lífsins en meira en það, -það er líka uppsafnaðar hamingjustundir sem verja sálina gegn sorgum og áföllum svo miklu betur en sé hún grindhoruð og óvarin. Þetta hamingjuspik sé ég fyrir mér sem hvíta og mjúka voð sem vefur sig um sálartetrið. Og með góðu magni af hamingjuspiki er hægt að halda í viðhorfið um að lífið sé í grundvallaratriðum gott.

Ég held að dagar eins og páskafrísdagar séu einmitt dagar til að safna spiki bæði á sál og líkama. Anda að sér sólskini og vori ef slíkt gefst, með öllum skilningarvitum, njóta daganna með sínu fólki og hugleiða allt sem er gott. Með þessu má borða súkkulaði og steikur allt eftir löngun og lyst, þar safnast kannski eitthvað af líkamlegu spiki sem má þá þræla af sér síðar. Endilega höldum samt í örlítið af mýktinni, það er góð fyrirmynd fyrir börnin okkar.

Ég veit samt ósköp vel að í veröldinni er mikið af fólki sem aldrei fær tækifæri til að safna hamingjunni utan um sálina. Sumir af örbirgð, átökum, illsku og hamförum en sumir vegna þess að lífið þeirra verður eftirsókn eftir hlutum sem eru þó einskis virði. Græðgi í peninga og græðgi í völd. Ekki nóg með það að hamingjuspik þeirra eigin sálar rennur af eins og smjör á pönnu heldur er hætt við því að þeim takist að höggva töluvert af hamingjuspiki saklausra sála sem fyrir þeim verður.

Ég óttast að það verði hlutskipti okkar í komandi og vaxandi góðæri. Ég óttast að þegar við erum farin að slá eigin met í innflutningi af Porche bílum og kaupa svo mikið af húsgögnum að Góði Hirðirinn og slík fyrirtæki eru hætt að taka við þeim notuðu, að hamingjan gleymist einhversstaðar á leiðinni. Gullæðið grípur okkur, -þeir sem mest eiga af völdum og peningum girnast meira og margir verða undir í kapphlaupi sem þeir höfðu engan áhuga á til að byrja með. Velferðarkerfið stendur á brauðfótum og mig langar lítið að hugleiða hvernig það getur endað hjá lítilli en ríkri þjóð þegar hún ekki hefur lengur áhuga á að hugsa um velferð aldraðra, veikra, barna og þeirra sem hvorki eiga peninga eða völd.

En sólin skín, fólkið mitt er hraust og hamingjusamt og ég get safnað hamingjuspiki næstu daga. Það er sko alls ekkert víst að allt fari á versta veg aftur, kannski sjáum við að okkur, kannski fáum við fleiri stjórnmálamenn sem láta stýrast af hugsjónum og kærleika en færri sem eltast við völd og fjármuni. Bjartsýni hefur aldrei gert neitt nema gott. Ég vona að þið fáið öll súkkulaði, einhverja frídaga með ykkar kærasta fólki og sannarlega slatta af hamingjuspiki á sál og líkama um þessa páska.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó