„Hey þú þarna gamli í Síðu“

„Hey þú þarna gamli í Síðu“

Verslunin Síða er fyrirmynd fyrsta bolsins sem KaffiðTV selur í gegnum nýja vefverslun sem er ætluð til þess að fjármagna reksturinn. Höskuldur Stefánsson, sem rak verslunina Síðu á sínum tíma, fékk fyrsta bolinn í hendurnar í dag og settist niður með okkur í smá spjall um Síðubúð.

Smelltu hér til þess að skoða vefverslun Kaffið.is.

„Þetta náttúrulega var eina hverfisverslunin í Þorpinu og það var gríðarlegur íbúafjöldi og blokkir þarna í kring þannig að það var svakalega mikið af fólki sem kom þarna og verslaði. Það voru margir sem versluðu bara hjá okkur og hvergi annarsstaðar. Við vorum með allt sem þurfti og kjötvaran var til dæmis oft á betra verði hjá okkur. Það þurfti ekkert að bjóða 40% eða 20% afslátt og svona við vorum bara ódýrari,“ segir Höskuldur.

Aðspurður segir Höskuldur að hann sakni tíma hverfissjoppnanna á Akureyri.

„Hugsaðu þér það, ég hætti með Síðu árið 2007 og ég er enn að hitta fullt af fólki og unglingum sem voru krakkar á þeim tíma. Þau stoppa mig niður í bæ og minnast á Síðu. Þetta er alveg stórkostlegt. Það voru náttúrulega alltaf persónulegri samskipti í þessum hverfisverslunum. Þetta var mjög skemmtilegur tími og ég kynntist mikið af frábæru fólki. Svo starfaði maður þannig að börnin og unglingarnir voru vinir manns og þeim þótti gaman að koma til okkar. Það voru margir krakkar sem komu stundum bara til þess að spjalla.“

Höskuldur segist vera ánægður með bolinn sem finnst á vefverslun Kaffið.is

„Ég gat ekki annað en farið að brosa, þetta rifjaði upp hjá mér margar og góðar minningar. Ég finn alveg fyrir söknuðinum sem margir bera til Síðu. Ég fæ oft að heyra það frá þessu fólki sem maður hittir og það er alltaf það sama: Hey þú þarna gamli í Síðu!,“ segir Höskuldur og hlær.

Facebook-síðan Síðubúð heldur minningu verslunarinnar gangandi með skemmtilegum færslum. Höskuldur segist ekki vita hver sé á bakvið Facebook-síðuna en hann hefur gaman af þessum leynda aðdáanda.

„Það er fullt af skemmtilegum póstum sem birtast þarna. Það hefur reyndar verið minna upp á síðkastið en þetta er ótrúlega skemmtilegt.“

Síðubolurinn fæst á vefverslun Kaffið.is ásamt fleiri hönnunum. Undanfarið hefur Kaffið verið að byrja samstörf með norðlenskum listamönnum til þess að búa til klæðnað sem getur hjálpað til að fjármagna starfið. Allur klæðnaður er merktur af Prenthaus.is.

Sambíó

UMMÆLI