NTC

Hestamennska fyrir alla

Að stunda hestamennsku getur verið allt í senn, íþrótt, atvinna, áhugamál og lífstíll þar sem umgengni við náttúru og dýr er í aðalhlutverki.

Í starfi mínu hef ég fengið einstakt tækifæri til að kynnast starfsemi á vettvangi hestamennsku og hrossaræktar bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Hrossaræktin og hestamennska sem áhugamál og íþrótt eru nátengd og styður þar hvort annað en áskoranir á þessum vettvangi eru margar og samkeppnin um tíma og áhuga fólks er mikil.

Eitt af stóru umræðumálunum á vettvangi hestamennskunnar er nýliðun í greininni, annað stórt mál eru öryggismál hestamanna. Það er mikilvægt fyrir framtíð hestamenskunnar og þar með okkur hestamenn að það sé raunhæfur valkostur fyrir nýtt fólk að koma inn í greinina. Eitt af þeim atriðum sem skipta miklu máli hvað það varðar er að hægt sé að skapa umhverfi þar sem allir upplifa sig örugga og geta notið sín. Þar bera báðir aðilar ábyrgð, annars vegar sveitarfélög að stuðla að uppbyggingu innviða sem gera slíkt mögulegt og hins vegar við hestamenn sjálfir með því að sýna hvort öðru tillitsemi og styðja við bakið á þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref og taka tillit til þeirra sem kjósa að stunda sína hestamennsku á öðrum forsendum en við kannski veljum sjálf. Munum að það besta við hestamennskuna er fjölbreytileikinn og okkar styrkur er að í hestamennsku ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Að stunda hestamennsku innan bæjarmarka á stórum þéttbýlisstað getur verið áskorun fyrir okkur sem höfum alist upp við það að geta þvælst á hesti út um allar koppagrundir án þess að spyrja kóng eða prest, helst með fleiri en einn til reiðar og hund með í för. Við hestamenn þurfum að sýna gott fordæmi og ganga um umhverfi okkar með hliðsjón af því að við erum í návist við þéttbýli og í sambýli við annað útivistarfólk. Við þurfum jafnframt að vera dugleg að fræða þá sem ekki þekkja til okkar íþróttar um okkur og okkar þarfir þannig að sambýlið við aðra geti gengið sem best fyrir sig.

Akureyri hefur alla möguleika á að efla hestamennsku sem hluta af íþróttalífi, afþreyingu og ferðaþjónustu í bænum og að hér verði öflugur miðpunktur hestamennsku og starfsemi í kringum hana. Ég er tilbúin að vinna með  hestamönnum að því verkefni.

Höfundur er fagstjóri búfjárræktar hjá Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins, hestaeigandi, útivistarmanneskja og skipar 3. sæti lista Framsóknarflokksins á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó