Hengdi bol yfir myndavél við Egilsstaðaflugvöll í mótmælaskyniLjósmynd: RÚV/Einar Ben Þorsteinsson

Hengdi bol yfir myndavél við Egilsstaðaflugvöll í mótmælaskyni

Líkt og Kaffið hefur greint frá þá hófst gjaldtaka fyrir bílastæði við þrjá innanlandsflugvelli Isavia í dag: Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Áður hafði staðið til að frítt væri að leggja á bílastæðunum norðan og austan í 5klst eða styttra, en vegna mótmæla ýmsra aðila, þar með talið Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra, var ákveðið að frítt yrði að leggja við Akureyrar- og Egilsstaðarflugvelli í 14 klukkustundir og eftir það tekið sólarhringsgjald. Isavia lýsti því yfir í fréttatilkynningu að  „þannig [sé] komið myndarlega til móts við þær athugasemdir og ábendingar sem fram hafa komið í umræðunni um gjaldtökuna.“ Þegar Kaffið greindi frá þeirri ákvörðun í gær mátti hins vegar sjá af viðbrögðum lesenda að margir séu ósammála því og þyki gjaldtakan yfir höfuð ekki eiga rétt á sér.

Einar Ben Þorsteinsson, hestamaður á Völlum fyrir austan, er einn af þeim sem er alls ekki sáttur við gjaldtökuna. Hann fékk þá flugu í kollinn að mótmæla gjaldtökunni og lét til skarar skríða á áttunda tímanum í morgun. Hann fór á Egilsstaðaflugvöll og hengdi þar rauðan bol yfir eina af fjórum myndavélum sem vakta bílastæðið. Einar setti svo myndband af gjörningnum á Facebook síðu sína og hvatti samsveitunga sína til að mótmæla gjaldtökunni með álíka friðsömum hætti og tók skýrt fram að hann vildi ekki sjá neinn fremja skemmdarverk í nafni málstaðsins. RÚV greindi frá.

Bolurinn var fjarlægður af myndavélinni skömmu seinna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó