NTC

,,Hélt að einhver Frakki væri að hringja til að selja mér eitthvað“

14352332_10206889714856649_291901812060759493_o

Geir í búningi Cesson-Rennes

Geir Guðmundsson var í gær valinn í landsliðshóp íslenska landsliðsins í handbolta fyrir tvo mikilvæga leiki í undankeppni EM. Geir er einn fjögurra Akureyringa í landsliðshópnum að þessu sinni.

Hinn 23 ára gamli Geir er einn þriggja nýliða í hópnum en það er líklegt að árið 2016 verði lengi í minnum haft hjá Geir sem skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning fyrr á þessu ári þegar hann gekk í raðir franska úrvalsdeildarliðsins Cesson-Rennes.

Hélt að landsliðsþjálfarinn væri sölumaður

Leikið verður gegn Tékkum í Laugardalshöll á miðvikudaginn í næstu viku og svo gegn Úkraínu ytra fjórum dögum síðar. Hópurinn var tilkynntur opinberlega í gær en Geir fékk að vita fréttirnar í síðustu viku.

,,Þá tók ég eftir því að eitthvað óþekkt númer hafði hringt í mig meðan ég var á æfingu. Ég hugsaði ekki mikið um það, hélt að það væri mögulega einhver Frakki að hringja í mig til að selja mér eitthvað þar til að ég spurði Gumma (Guðmund Hólmar Helgason) hvort hann kannaðist við þetta númer. Þá var þetta þýska númerið hjá nafna mínum (Geir Sveinssyni, landsliðsþjálfara) en hann hringdi svo seinna um daginn og sagði mér að ég væri að koma til Íslands, það var reglulega skemmtilegt símtal.“

13774328_274609642916015_1599630967_n

Frændurnir Geir og Guðmundur eru samherjar hjá Cesson-Rennes og nú líka með íslenska landsliðinu

Geir hefur leikið fyrir yngri landslið Íslands en hann segir það mikinn heiður að vera valinn í A-landsliðið.

,,Það er erfitt að lýsa því hvernig tilfinning þetta er. Ég veit að hluti af ástæðunni fyrir því að ég var valinn er að Ásgeir Örn er tæpur og ég er ekki kominn í lokahóp en ég var samt mjög ánægður og stoltur. Að vera valinn í þennan úrvalshóp er algjör heiður. Svo er líka ágætis bónus að fá að koma til Íslands og hitta kærustuna, vini og vandamenn.“

Löng ferðalög í Frakklandi

Eftir að hafa alist upp í Þorpinu á Akureyri spilaði Geir með Akureyri í nokkur ár áður en hann færði sig um set til Reykjavíkur til að spila fyrir Val. Hann tók svo skrefið út í atvinnumennsku síðastliðið sumar og hefur verið að stimpla sig inn í franska boltann að undanförnu.

,,Franski boltinn er mjög skemmtilegur, hraður og harður. Það eru mörg jöfn og góð lið og aldrei hægt að bóka auðveldan leik þannig að maður þarf alltaf að gefa allt í alla leiki. Það er reyndar góð regla hvar sem maður er að spila,“ segir Geir.

geri-vs-karabatic

Geir svífur yfir Nikola Karabatic

Það er engum blöðum um það að fletta að franska deildin er ein sú besta í heimi en þar leika nokkrir af fremstu handboltamönnum sögunnar og nægir að nefna í því samhengi þá Nikola Karabatic, Mikkel Hansen og Thierry Omeyer.

Því má ætla að það hafi verið stórt stökk að fara úr Olís-deildinni á Íslandi til Frakklands en í hverju felst munurinn helst?

,,Það er þónokkur munur þarna á milli. Það er gífurlegt framboð á góðum handboltamönnum hér í Frakklandi, svo eru lið nokkuð dugleg að sækja útlendinga til að fylla í skörðin. Helsti munurinn er líklega sá að hér eru allir mjög góðir, sérstaklega markmennirnir. Áhuginn fyrir handbolta hér er líka töluvert meiri en það er yfirleitt troðfull höll og fólk öskrar allan tímann.“

Ferðalögin í leiki taka sinn toll að sögn Geirs sem ætti þó að vera ýmsu vanur eftir fjölmargar rútuferðir milli Akureyrar og Reykjavíkur í gegnum tíðina.

,,Það er smá skellur að hver útileikur tekur 3 daga. Við förum alltaf af stað daginn fyrir leik, svo er leikdagur og leikirnir eru alltaf spilaðir svo seint að það þarf að taka heilan dag í að ferðast, daginn eftir leik.“

Sjá einnig

Geir Guðmundsson í nærmynd – Gunni Mall Jr. mest pirrandi

Sambíó

UMMÆLI