Helga Íris nýr byggingar- og skipulagsfulltrúi Dalvíkurbyggðar

Helga Íris nýr byggingar- og skipulagsfulltrúi Dalvíkurbyggðar

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. mars 2021 að ráða Helgu Írisi Ingólfsdóttur í starf byggingar- og skipulagsfulltrúa hjá Dalvíkurbyggð. Starfið er nýtt starf á Framkvæmdasviði Dalvíkurbyggðar.

Jafnframt samþykkti sveitarstjórn að fela sveitarstjóra að kanna mögulegt samstarf við nágrannasveitarfélögin um verkefni byggingarfulltrúa, til að uppfylla kröfur laga um mannvirki.

Helga Íris er með BS próf í umhverfisskipulagi/landslagsarkítektúr frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Þá lýkur hún MSc í skipulagsfræði frá sama skóla í vor. Hún hlaut einnig alþjóðlega D-vottun IPMA í verkefnastjórnun frá Símenntun HA og er að sækja sér viðbótardiplómu hjá Háskóla Íslands í opinberri stjórnsýslu.

Helga Íris er innfæddur Dalvíkingur og býr á Dalvík ásamt eiginmanni og fjórum börunum. Hún hefur brennandi áhuga á umhverfis- og skipulagsmálum og mikinn metnað fyrir því að vinna að framförum á því sviði í Dalvíkurbyggð. Hún hefur setið í umhverfisráði og er innviðum sveitarfélagsins að góðu kunn. Einnig vann hún um tíma á tæknideild Dalvíkurbyggðar. Hún er í tímabundnu starfi í afleysingu hjá Fjallabyggð sem skipulags- og tæknifulltrúi en lýkur því á næstu vikum og mun hefja störf hjá Dalvíkurbyggð á vordögum.

Frétt: Trölli.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó