,,Heimurinn er ekkert fullkominn þegar það kemur að því að vera, já bara kona almennt“

Sunna Kristjana er menntaður byggingarverkfræðingur og vinnur hörðum höndum í Vaðlaheiðargöngum sem framleiðslustjóri gangagerðar.

Sunna Kristjana er menntaður byggingarverkfræðingur og flutti nýlega norður til að sinna starfi framleiðslustjóra gangagerðar í Vaðlaheiðargöngum. Sunna hefur unnið ýmist í Sviss, Noregi og á Íslandi við hin ýmsu störf, en segir það gott að koma heim í þetta krefjandi verkefni. Hún hvetur eindregið fleiri konur til að taka þátt í verklegum framkvæmdum.

Gott að koma norður aftur
Sunna segist ekki hafa verið lengi að svara játandi þegar henni bauðst starfið en hún er fæddur og uppalinn Akureyringur og á fjölskyldu þar. Síðastliðin ár hefur hún unnið fyrir svissneskt fyrirtæki en hún hefur verið búsett í Noregi undanfarin ár, ýmist að vinna verkefni þar eða á Íslandi. ,,Ég sinnti verkefni í norður-Noregi í eitt og hálft ár í gæðatæknieftirliti og í framhaldinu fékk fyrirtækið verkefni hjá Búrfelli og það lá beinast við að senda mig þangað, þar sem ég tala nú reiprennandi íslensku. Þá vann ég tvær vikur á Íslandi og eina viku í Noregi til skiptis,“ segir Sunna en nú er hún laus við sífelld ferðalög í bili og nýtur þess að vera heima á Akureyri.

Stefnt á verklok næsta haust
Mikið hefur gengið á við gerð Vaðlaheiðaganga og einhverjar tafir hafa orðið á verklokum. Heitt vatn Eyjafjarðarmegin flækti vinnuna verulega, kalt vatn fyllti upp í göngin Fnjóskadalsmegin og erfitt setberg torveldaði vinnu mjög í mars á þessu ári. Aðspurð hvort að það mætti örugglega búast við því að verkefninu ljúki næsta haust segist Sunna vera nokkuð örugg á því að svo verði.
,,Maður náttúrlega þorir varla að segja neitt í þessu verki en jú, nema það komi eitthvað rosalegt upp þá stenst það alveg,“ segir Sunna.

Hópur fólks að vinna í vegskálanum við göngin, Eyjafjarðarmegin. Mynd: Sunna Kristjana.

Aðeins tvær konur í framleiðslunni
Framleiðslustjóri gangagerðar felur í sér að skipuleggja og skoða hvort verið sé að gera rétta hluti inni í göngunum. Þá eru ekki margar konur sem vinna að gerð ganganna, en Sunna segir þær vera tvær, hana og framleiðslustjóra rafmagns, sem starfa í göngunum sjálfum, en fleiri konur ef ræstingar- og eldhússtarfsmenn eru teknir með. Hún segir það ekkert nema góða upplifun að starfa í svona karllægum bransa.

,,Ég þekki bara ekkert annað. Fyrir mér hefur þetta alltaf verið mjög góð upplifun og yfirleitt alltaf gengið mjög vel. Það er að sjálfsögðu alltaf eitthvað, eins og maður sér og heyrir í #metoo sögunum allsstaðar. Heimurinn er ekkert fullkominn þegar það kemur að því að vera, já bara kona almennt, en ég hef alltaf haft mjög sterka bakhjarla í mínum yfirmönnum sem styðja mig alveg í svoleiðis efnum,“ segir Sunna.

Sunna segir einu sinni hafa komið upp mál sem gekk of langt og þá hafi yfirmenn hennar strax gripið í taumana. Þá sé áreitnismálum í þessum bransa ekki sýnd nein þolinmæði. Viðkomandi sem gerist sekur um slíkt athæfi er hreinlega sendur heim um leið, ítrekar Sunna. Hún vill ólm fá fleiri konur í bransann og hvetur konur eindregið til þess að taka meiri þátt í verklegum framkvæmdum.
,,Þetta er bara svo afskaplega skemmtilegt og gefandi! Ég mæli algjörlega með þessu fyrir konur.“

Viðtalið birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi í desember. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó