NTC

Heimaræktin hentar ekki öllum

Heimaræktin hentar ekki öllum

Practise what you preach. Að stunda það sem þú segir. Svona eins og háskólanemar í iðjuþjálfunarfræði læra um jafnvægi í daglegu lífi á meðan lífið í skólanum samræmist ekki þeim lögmálum. Svona eins og foreldrar lesa yfir börnunum um að draga úr skjátíma á meðan þeir sjálfir eru ekkert skárri. Svona eins og ég tala stöðugt um mikilvægi líkamsvirðingar á meðan ég hef misboðið líkama mínum með misræmi í mat og hreyfingu. 

Það er auðvelt að vera mikill í orði en lítill á borði. Það er hægara sagt en gert að láta verkin tala. Vissulega er fyrsta skrefið að opna umræðuna og skapa ákveðna vitund. Það má bara ekki stoppa þar og stranda óháð hvaða viðfangsefni um er að ræða. Alveg eins og við megum ekki staðnæmast í geðheilbrigðismálefnum. 

Geðheilbrigði, geðrækt og geðrænar áskoranir eru ekki sama feimnismál og hér áður fyrr. Síðustu ár hefur geðheilsa fólks verið mikið í umræðunni þar sem margir hafa stigið fram og deilt sinni reynslu. Það má sannarlega segja að búið sé að opna umræðuna og hefur orðið vitunarvakning á mikilvægi andlegrar heilsu. Þetta er frábær þróun enda andleg heilsa mikilvægur þáttur í almennu heilbrigði. Þrátt fyrir þessa vitneskju eigum við hins vegar enn langt í land með aðlaga og staðfæra geðrækt að samfélaginu sem við lifum í. 

Fólk er án efa almennt meðvitaðara um geðrækt og hvað í henni felst. Sumir grunnskólar og framhaldsskólar hafa jafnvel byrjað með sérstaka áfanga tengt henni. Samt sem áður virðast fordómar enn þá vera til staðar. Þessi hyggja að maður þurfi ekki að gefa sér tíma í geðræktina nema vera komin í kulnun, lagður inná geðdeild eða greindur með geðsjúkdóm. Þá fyrst er orðið réttlætanlegt að verja tíma í geðrækt. 

Eigum við að byrja að hreyfa okkur þegar kroppurinn er farinn að gefa sig? Þegar verkir og vandamál láta á sér bera? Samkvæmt öllum sjúkraþjálfurum sem ég hef hitt ætti stefnan frekar að vera regluleg, hófleg hreyfing jafnt og þétt. Með þeim hætti má draga úr líkum á stoðkerfisvandamálum og sömuleiðis gera mann hraustari til að takast á við vandamálin þegar þau koma. Við vitum jú flest að almenn hreyfing öllu jöfnu er veigamikill hluti af heilbrigðum lífstíl. 

Það skortir sömu hugsun fyrir andlegu heilsuna. Við viljum nefnilega stunda almenna geðrækt alveg eins og almenna líkamsrækt. Með því að styrkja og efla andlega heilsu verðum við betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika, áföll og áskoranir. Eitthvað sem allir þurfa að takast á við á einhverjum tímapunkti. Það væri hægt að hugsa um geðheilsuna eins og bankareikning. Reikningurinn er í núlli ef þú leggur ekkert inn með reglulegri geðrækt. Svo ef eitthvað kemur uppá fer reikningurinn í mínus og þá má segja að andlega heilsan sé orðin slæm. Við viljum vera dugleg að leggja inn á reikninginn okkar og helst halda honum í plús þannig andlega heilsan helst góð sömuleiðis. Þá verður líka til staðar innistæða sem hægt er að grípa í þegar, ekki ef, eitthvað kemur upp á. 

Geðræktin þarf ekki að vera flókin eða tímafrek heldur þarf einungis að taka sérstaklega frá tíma fyrir hana. Hver og einn þarf svolítið að finna út hvernig geðrækt hentar sér þar sem hægt er að fá fjölda hugmynda í bókum, greinum og á netinu. Að vita er eitt og að gera er tvímælalaust annað. Það er áskorun að koma sér upp nýjum vana og sérstaklega getur það verið strembið ef ekkert utanumhald eða félagslegur stuðningur er til staðar. Margir eiga til dæmis erfitt með að taka styrktaræfingu heima hjá sér en gengur mun betur að mæta í líkamsræktarstöð með félögum sínum. Af þessum ástæðum er mikilvægt að sömuleiðis séu til staðar geðræktarstöðvar. Þær eru kannski ekki margar en þær eru ákveðinn vettvangur fyrir einstaklinga til að kúpla sig út og beina allri sinni athygli að styrkingu andlegu heilsunnar. Eitthvað sem við erum jú flest orðin sammála um að sé mikilvægur hluti af almennri heilsueflingu. Það nægir þó ekki að samþykkja það á fundum og í umræðum heldur þurfum við líka að sýna í verki að geðrækt er nauðsynleg og við hæfi allra. Hvort sem geðræktin er stunduð heima eða í sérstakri geðræktarstöð. 

*Your mental health is everything – prioritize it. Make the time like your life depends on it, because it does*

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó