Framsókn

Heilsugæslustöðvar á Akureyri verða tvær

Heilsugæslustöðvar á Akureyri verða tvær

,,Stórum áfanga er náð í málefnum heilsugæslunnar á Akureyri en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að gert verði ráð fyrir tveimur starfsstöðvum heilsugæslu í Akureyrarbæ. Auglýst verði eftir húsnæði fyrir stöðvarnar í byrjun næsta árs og er þessi ákvörðun ráðherra í samræmi við vilja stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Norðurlands,“ kemur fram í tilkynningu á vef Heilsugæslustöðvar Norðurlands.

Núverandi húsnæði heilsugæslustöðvarinnar er staðsett í miðbæ Akureyrar í fjögurra hæða húsi sem er óhentugt, illa hannað fyrir nútíma heilsugæslu og aðgengi slæmt. Auk þess er húsnæði heimahjúkrunar staðsett í Skarðshlíð.
Sagði Svandís Svavarsdóttir að löngu væri tímabært að færa heilsugæsluþjónustuna á Akureyri í fullnægjandi húsnæði:

„Áhersla stjórnvalda er að leggja áherslu á að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem aðgengi er gott og þjónustan þverfagleg. Aðlaðandi starfsumhverfi sem mætir vel þörfum starfsfólks og notenda skiptir máli í því samhengi.“

Heilsugæslustöðin á Akureyri hefur stóran hóp skjólstæðinga en rúmlega 21.000 manns eru skráðir á stöðina og eru það töluvert fleiri einstaklingar en að jafnaði eru skráðir við heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt spám um mannfjöldaþróun á upptökusvæði heilsugæslunnar á Akureyri má búast við að íbúar verði þar nálægt 25.000 árið 2030.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands skipaði fyrir tveimur árum vinnuhóp með aðstoð ráðgjafafyrirtækis til að gera úttekt á húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri með það markmið að varpa ljósi á nauðsyn þess að heilsugæslan flytti í nýtt húsnæði. Tekið var tillit til stækkunar Akureyrarbæjar, fjölgunar íbúa og breytinga á aldurssamsetningu íbúa. Í skýrslunni var talið æskilegt að heilsugæslan yrði í tveimur starfsstöðvum og þjónusta og starfsemi sambærileg á báðum stöðum. Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, sagði skýrsluna mikilvægan áfanga í þróun heilsugæslunnar á Akureyri og með henni mörkuð sú leið sem Heilbrigðisstofnunin vill fara á komandi árum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó