NTC

Heilsuefling fyrir 60 ára og eldri

Heilsuefling fyrir 60 ára og eldri

Hallgrímur Gíslason skrifar

Það eru liðin nokkuð mörg ár síðan Félag eldri borgara á Akureyri viðraði upphaflega nauðsyn þess að koma á öflugu verkefni til að auka hreyfingu og aðra heilsueflingu fyrir fólk sem er 60 ára og eldra hér í bænum. Haustið 2018 var samþykkt Velferðarstefna Akureyrarbæjar fyrir árin 2018-2023. Í henni stendur m.a.:

„Boðið skal uppá fjölbreytt tómstundastarf og fræðslu fyrir aldraða til að koma í veg fyrir félagslega einangrun. Sérstök áhersla skal lögð á hreyfingu og almenna heilsueflingu“

Á aðalfundi EBAK árið eftir var einróma samþykkt ályktun um nauðsyn þess að koma á víðtækri heilsueflingu fyrir umræddan hóp hér í bæ. Nokkru síðar hófst vinna við gerð aðgerðaáætlunar í málefnum eldra fólks, þar sem aðaláherslan var lögð á lýðheilsu. Könnuð voru slík verkefni hjá nokkrum sveitarfélögum til að fá hugmyndir. Strax var ákveðið að vinna verkið alfarið hér á svæðinu og stýra því af heimafólki. Verkefnið hér nefnist Virk efri ár og eru fjármunir veittir til þess á fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar.

Með samþykkt áætlunarinnar í desember 2021 komst skriður á málið. Um svipað leyti hófst samvinnuverkefni á vegum Landssambands eldri borgara (LEB) og Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), sem fékk nafnið Bjartur lífsstíll. Verkefnisstjórar þess komu hingað norður og fræddu nokkra tilkvadda aðila um tilgang þess og hvernig það væri hugsað. Á heimasíðunni bjartlif.is eru miklar upplýsingar um heilsueflingu eldra fólks og þar eru meðal annars listuð upp þau hreyfiverkefni sem eru í boði í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Haustið 2022 var Héðinn Svarfdal Björnsson ráðinn verkefnisstjóri lýðheilsu hjá Akureyrarbæ og hófst hann þegar handa við að koma Virkum efri árum af stað. Strax í upphafi var ákveðið að hafa samstarf við íþróttafélögin hér í bæ og áttu forsvarsmenn í KA og Þór aðild að vinnunni ásamt fulltrúa ÍSÍ, forstöðumönnum íþróttamála og tómstundamála hjá Akureyrarbæ og fulltrúa frá EBAK. Gert er ráð fyrir að í framtíðinni annist HSN og HA ýmis konar heilsufarslegar mælingar hjá þátttakendum.

Í lok janúar á þessu ári var verkefnið kynnt fyrir fjölmennum hópi áhugasamra í Hömrum í Hofi og í framhaldi af því hófst skráning í þá viðburði sem voru settir á dagskrá fyrstu annarinnar, en árinu er skipt niður í þrjár 12 vikna annir. Vorönn frá febrúar til maí, sumarönn frá júní til ágúst og haustönn frá október til desember. Sumarönnin byrjar 12. júní þetta árið og verður þá lagt meira upp úr útiveru en yfir veturinn.

Akureyrarbær styður myndarlega við þetta verkefni og því hefur tekist að hafa lágt þátttökugjald.

Verkefnið er hugsað fyrir alla á Akureyri, sem hafa náð sextíu ára aldri og eru engin efri aldursmörk. Það skiptir engu máli hvort þátttakendur eru vanir í íþróttum, leikfimi eða hafa lítið eða ekkert stundað neitt slíkt. Tilgangurinn er að viðhalda þreki og þoli þeirra sem taka þátt og er miðað við að hafa viðburðina sem fjölbreyttasta, en umfram allt skemmtilega. Það ásamt virkri þátttöku og góðum félagsskap er nefnilega besta leiðin til að bæta lífi í árin.

Höfundur er varaformaður öldungaráðs Akureyrarbæjar og fráfarandi formaður Félags eldri borgara á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó