Heiðdís ætlar að gera 100 sjálfsmyndir árið 2018

„Við yngri kynslóðirnar erum að njóta ávaxtanna af vinnuhörku duglegs fólks við Listagilið“

Myndlistakonan Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir hefur sett sér það markmið að gera 100 sjálfsmyndir árið 2018. Heiðdís útskrifaðist úr Fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri árið 2016. Hún segist hafa nánast einungis gert sjálfsmyndir frá útskriftinni og að hugmyndin hafi komið frekar náttúrulega.

„Ég geri líka sjálfsmyndir í óhlutbundnum verkum eins og í skúlptúra- og gjörningaformi. Mér finnst ég eiginlega vera að svindla ef ég vinn ekki út frá sjálfri mér, að listin sé einhvern veginn ekki nógu heiðarleg annars.“

Af hverju sjálfsmyndir?
„Þetta er auðvitað bara þessi leit að sjálfinu og sjálfinu sem listamaður sem ég held að við séum flest að glíma við. Ég hef svona aðeins verið að kúpla mig út úr sýningarhaldi, hef ekki verið að leita eftir tækifærum en þarf samt að hafa eitthvert markmið. Ég var svolítið dottin í að vinna bara fyrir sýningar, ákveðin verkefni, en ekki list listarinnar vegna. Nú er ég að vinna þennan aga, að mæta við vinnuborðið alla daga og gera eitthvað þó að það sé enginn yfirvofandi skilafrestur.“

100 er leiðinleg tala
Heiðdís er nú þegar búin með 16 sjálfsmyndir á árinu. Hún segir að líklega muni hún ekki sýna allar 100 myndirnar.

„Sumar eru ljótar og enginn fær að sjá þær. Sumar tóku 30 mínútur og aðrar 30 daga. Ef ég sýni þetta verða þetta líklega ekki 100 verk, 100 er líka svo leiðinleg tala.“

Myndirnar sem Heiðdís hefur gert í verkefninu hingað til eru allt teikningar, hún vonast til þess að geta gert fjölbreyttari verk á árinu.

„Ég er með takmarkað pláss til að sulla en ég stefni á að gera stærri málverk og ýmislegt brall sem tekur lengri tíma þegar ég get.“

Vantar umfjöllun um myndlist á Norðurlandi

Heiðdís segir ljúft að vera í myndlist á Akureyri. Yfirleitt sé nóg um að vera og lítið mál að setja upp sýningar.

„Við yngri kynslóðirnar njótum ávaxtanna af vinnu hörku duglegs fólks við Listagilið sem hófst áður en ég fæddist. Það er mikill DIY (Gerðu það sjálfur) fílingur og ég held að það sé góð dínamík á milli grasrótarinnar og stólpanna sem blandast líka oft saman. Myndlistarumfjöllun mætti samt vera meiri, hún nær yfirleitt ekki norður og ég vil hvetja þá fínu staðarmiðla sem við höfum að taka við sér.“

Fagnar breyttu og bættu Listagili

„Við erum held ég oft í svolítilli „búbblu“ sem við þurfum bæði að hleypa inn í og komast út úr. Aðalharkið var að fá vinnustofu en ég var mjög heppin. Ég var bæði í Samlaginu í Listasafninu og um tíma í Rósenborg síðustu tvö árin,“ segir Heiðdís.

Hún telur jafnframt að breytingarnar í Listagilinu muni koma sér vel fyrir listafólk bæjarins sem og aðra íbúa og ferðamenn.

„Það verður gott að fá aftur vinnustofur í Listasafnið, þar gerast einhverjir ótrúlegir galdrar og gott að fá bætt sjálfstæð rými líka. Gilfélagið er líka að vinna að því að koma upp opnu grafíkverkstæði í Gilinu sem verður frábær viðbót í flóruna. Akureyri er menningar- og menntabær og endurbæturnar fela í sér betri aðstöðu til kennslu og fastar sýningar, bæði á safneign og líka sögusýningar. Svo trúi ég ekki öðru en að bæjarbúar taki nýju kaffihúsi opnum örmum.“

Sjálfskipuð útlegð í skoskri sveit

Heiðdís er í augnablikinu stödd í Glasgow þar sem kærastinn hennar stundar háskólanám.

„Við erum núna í sjálfskipaðri útlegð í skoskri sveit þangað til hann skilar af sér. Við reynum að kíkja í kaupstaðarferðir um helgar þar sem það er innan við klukkutíma keyrsla bæði til Edinborgar og Glasgow. Það er geggjað að geta unnið hvar sem er í heiminum og anda að sér nýju lofti og straumum á meðan. Ég hlakka þó til að koma aftur til Akureyrar, hvenær sem það verður.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó