Gæludýr.is

Haustveira

Haustveira

Inga Dagný Eydal skrifar:

Já lífið krakkar mínir,- lífið!

Enn á ný erum við minnt á það hversu litla stjórn maðurinn hefur á náttúrunni, eða þá í besta falli, hverslags óstjórn það er sem við reynum að viðhafa. Enn og aftur minnir allt okkur á það að við þurfum að lifa með lífinu en við stjórnum því ekki. Jörðin skelfur, veður verða válynd og veiran okkar stóri vágestur snýr aftur magnaðri en fyrr. Fréttatíminn er aftur kominn með myndskreytingar af risastórri ljótri veiru og sama parið gengur endalaust inn í Leifsstöð með grímurnar fyrir andlitinu. Við reynum enn að skella skuldinni hvort á annað en enginn vill missa spón úr sínum eigin aski, meira að segja íþróttir eru farnar að snúast að svo miklu leyti um fjárhagslega hagsmuni að forsvarsmenn þeirra taka fullan þátt í þessum dansi í kringum gullkálfinn.

Við vissum vel og okkur var margoft sagt það að lífið með faraldrinum yrði langhlaup, við fengum ágætis sumarfrí og gátum látið um stund sem veiran væri orðin minningin ein en það gengur ekki mikið lengur. Sumarfríinu er að ljúka.

Nú þarf að setja upp grímurnar, sleppa tökunum og fórna ýmsu því sem við áður töldum sjálfsagt, svona eins og það að geta hópast saman,- hópverur sem við erum. Hörfa aftur inn á við og treysta á þá sem þurfa að standa í eldlínunni, láta skynsemi og samhyggð ráða fremur en skammtímagróða. Hlýða öðlingnum honum Víði sem er orðinn nokkurs konar samnefnari skynsemi og vísinda.

Óvissu um framtíð, heilsu og afkomu fylgir kvíði og kvíðinn er ekkert sérstaklega góður félagi. Hann fer meira að segja að verða fylginautur barnanna okkar og það er auðvitað það versta. Það er mörgu að kvíða og mörg vandamálin sem ráða þarf fram úr.

Ég ætlaði hinsvegar ekki að predika neitt,- stundum reyndar verður það svona eins og ósjálfrátt því ég er jú eins og við flest, nokkuð viss um að mín viðbrögð og mínar tilfinningar séu rökréttar. Sorrý bara, skal reyna að gera betur. Predikun lokið, allavega í bili.

Ég ætlaði hinsvegar aðeins að koma inn á það sem koma skal og segja ykkur hvernig mér líður gagnvart því. Ég viðurkenni vel að ég er kannski ekki sú sem þjáist mest fyrir að draga mig í hlé, verandi félagskvíðin kona en mér finnst vond tilhugsun að bakka aftur. Mig langar að geta boðið mínu fólki í mat og mig langar að hitta þá sem mér þykir vænt um, langar að vita hvenær ég hugsanlega get hitt barnabarnið mitt í Ameríku, hvenær ég get farið aftur á tónleika og svo má lengi telja.

Það er svo skrýtið að þegar ég byrja að skrifa um þessa veirutíma, þá finnst mér að ég geti talið upp endalaust slæma hluti, ég megi ekki sleppa neinu því allir séu að þjást fyrir ástandið. En kannski liggur kvíðinn einmitt þar og eftirfarandi er mikilvægt að muna: Ég ber ekki ábyrgð á vanlíðan allra og ég má skapa mér góða daga jafnvel þótt öðrum líði illa. Samhyggð er ekki það að upplifa kvíða og sorgir allra annarra á eigin skinni. Samhyggð er að geta sett sig í spor annarra og skilið hvernig þeim líður en ekki að taka tilfinningar þeirra og gera þær að sínum.

Að því sögðu viðurkenni ég bara að ég get séð fram á góða daga þrátt fyrir allt. Ég bý við vanheilsu og stunda ekki fasta vinnu þannig að ég get unnið mín verkefni eftir sem áður að heiman að hluta til. Ég get sinnt heilsunni minni heima, gengið úti og hugsað um veröldina mína sem skreppur saman og verður lítil og viðráðanleg en samt með óþrjótandi verkefnum. Þar eru ólesnar bækur og óbakað brauð, ómálaðir veggir og ósögð orð. Þar er tölvusamband sem ég þakka fyrir dag hvern. Ég get talað við fólkið mitt, lesið og sungið með barnabarninu í annarri heimsálfu, skrifað bréf og unnið að allskonar verkefnum. Unnið ljósmyndir, farið í bankann minn, talað við lækninn í Reykjavík, horft á bíómyndir, kannað lönd og heima. Ég eignast vini í gegnum netið og held sambandi við gömlu vinina. Fólk deilir meiru á netinu nú en áður, segir frá hugsunum og tilfinningum, deilir upplifunum af veikindum og sorgum. Við það færumst við nær því að skilja hvort annað og þannig verður til samhyggð.

Kannski (og nei ég hætti aldrei að vona það) lærum við meira um mennsku og samhyggð í mátulegri fjarlægð og kannski getum við verið betri hvort við annað þegar samskiptin færast í eðlilegt horf aftur. Við verðum jafnvel búin að læra að draga úr lífsgæðakapphlaupinu og farin að kunna að meta að manneskjan er bara lítið brot af lífskeðjunni, hvorki höfundur eða stjórnandi náttúrunnar.

En nú er ég líklega aftur farin að predika. Förum inn í haustið og faraldurinn af varkárni og ábyrgð en gleymum ekki að það má alveg vera gaman. Það meira að segja á að vera gaman.

Góðar stundir.

Greinin birtist upphaflega á www.raedaogrit.com

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó