Haustmót ÍSS á Akureyri um helgina – SA fékk tvö gull á mótinuAldís Kara frá Skautafélagi Akureyrar lenti í 2. sæti í Junior-flokki um helgina.

Haustmót ÍSS á Akureyri um helgina – SA fékk tvö gull á mótinu

Haustmót ÍSS fór fram síðastliðna helgi, 7. – 9. september, í Skautahöllinni á Akureyri þar sem á fimmta tug keppenda tóku þátt frá þremur aðildarfélögum Skautasambands Íslands. Það voru Skautafélag Akureyrar, Skautafélagið Björninn og Skautafélag Reykjavíkur sem kepptu en langflestir keppendur komu frá Reykjavík.

Skautafélagi Akureyrar tókst þó samt sem áður að vinna sér inn tvö gull, eitt silfur og eitt brons. Keppt var í nokkrum aldurs- og getuflokkum en keppnin hófst á laugardeginum í keppnisflokkunum Chicks og Cubs, sem eru yngstu keppendur félaganna. Þátttakendur í þeim flokkum fengu allir viðurkenningu og þátttökumedalíu. Ekki eru gefin upp heildarstig eða efstu sæti tilkynnt í þessum flokkum.

Eva Björg Halldórsdóttir sigraði Intermediate Ladies keppnisflokkinn

Mynd fengin af heimasíðu ÍSS.

Eva Björg Halldórsdóttir, hjá Skautafélagi Akureyrar, sigraði flokkinn Intermediate Ladies, sem er keppnisflokkur fyrir 15 ára og eldri. Eva fékk 26.93 í heildarstig en í öðru sæti var Hildur Hilmarsdóttir hjá Skautafélaginu Björninn, með 25.94 heildarstig.
Skautafélag Akureyrar nældi sér einnig í bronsið í þessum keppnisflokki en í þriðja sæti var Hugrún Anna Unnarsdóttir með 22.49 í heildarstig.

Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir sigraði Basic Novice keppnisflokkinn

Keppnisflokkurinn Basic Novice kominn saman.

 Í Basic Novice keppnisflokknum, þar sem samkeppnin var mjög hörð, átti Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir öruggan sigur með 27.35 heildarstig. Skautafélag Reykjavíkur átti silfur og brons í þessum flokki.

Aldís Kara Bergsdóttir tók annað sætið í Junior flokki 
Í þessum efstu keppnisflokkum í listhlaupi er keppt með tvö prógrömm, stutt prógramm og frjálst prógramm, á sitthvorum deginum. Því getur margt breyst eftir hvort prógramm fyrir sig. Aldís Kara Bergsdóttir átti frábæra keppni með langa prógramminu á sunnudeginum og var efst af öllum keppendum. Hins vegar gekk stutta prógrammið á laugardeginum ekki alveg eins vel og því lenti hún í öðru sæti með 87.36 heildarstig. Viktoría Lind Björnsdóttir frá Skautafélagi Reykjavíkur vann keppnisflokkinn með 89.87 heildarstig og því munurinn á fyrsta og öðru sætinu aðeins 2.51 stig.

Keppendur sýndu frábæra frammistöðu um helgina en það mátti greina mikla spennu og harða keppni um efstu sætin í öllum keppnisflokkum. Það er ábyggilegt að íþróttinni er að fara mikið fram hérlendis og iðkendur hafa sýnt gríðarlegan vöxt síðustu ár. Það verður skemmtilegt að fylgjast með þessum efnilegu íþróttakonum í vetur.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó