NTC

Haukur Sindri gefur út smáskífuna Jól á Akureyri: „Þykir verulega vænt um heimabæinn“

Haukur Sindri gefur út smáskífuna Jól á Akureyri: „Þykir verulega vænt um heimabæinn“

Tónlistarmaðurinn Haukur Sindri Karlsson hefur sent frá sér smáskífu með tveimur jólalögum. Smáskífan heitir Jól á Akureyri og inniheldur lögin Snjórinn Fellur! og Jólanótt á Ráðhústorgi.

Haukur segist hafa samið lögin í byrjun desember eftir heimsókn til kærustu sinnar í Portúgal.

„Mig hefur alltaf langað að gera jazzaða jólatónlist í anda Nat King Cole sem varð innblásturinn að Jólanótt á Ráðhústorgi. Ég hugsaði mikið um göngugötuna og jólatréð í miðbænum þegar ég vann að því. Einnig langaði mig að gera Hollywood kvikmyndatónlist í anda jóla-annríkisins sem varð að verkinu Snjórinn Fellur!“ segir Haukur í spjalli við Kaffið.is.

„Glerártorg, umferðin, asinn og spenningurinn fyrir jólunum var mikill innblástur. Það er langt síðan að ég hef verið Akureyri yfir hátíðarnar þar sem ég er búsettur erlendis, en mér þykir verulega vænt um heimabæinn og minningarnar sem ég á þaðan frá jólunum. Mér fannst mjög viðeigandi að gefa þetta út núna og dreifa jóla andanum fyrir þá sem vilja.“

Haukur Sindri hefur verið duglegur að vinna að tónlist eftir að hann útskrifaðist úr mastersnámi í tónamíðum frá Royal College of Music í London í júlí. Eftir útskrift fékk hann starf hjá tölvuleikjaframleiðanda sem heitir GAMUCATEX í Köben við að semja tónlist fyrir tölvuleikinn Tectonicus.

Þá hefur hann unnið með Atla Degi vini sínum að tónlistarverkefni hans, Atli, og má búast við nóg af nýrri tónlist frá þeim félögum á næstu mánuðum.

Lögin Jól á Ráðhústorgi og Snjórinn Fellur! má heyra í spilaranum hér að neðan:

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó