Haukur Heiðar hættir í fótboltaMynd: KA.is

Haukur Heiðar hættir í fótbolta

Knattspyrnumaðurinn Haukur Heiðar Hauksson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna vegna langvarandi meiðsla. Frá þessu er greint á vef KA.

Haukur er þrítugur en hann lék sinn fyrsta leik fyrir KA árið 2008 gegn Fjarðabyggð þegar hann kom inn á sem varamaður fyrir Dean Martin. Hann varð í kjölfarið lykilmaður hjá liðinu og spilaði 91 leik fyrir félagið frá 2008 til 2011 og skoraði 6 mörk.

Hann fór frá KA til KR þar sem hann varð Íslands- og Bikarmeistari. Árið 2015 gekk Haukur til liðs við sænska stórliðið AIK þar sem hann varð meðal annars sænskur meistari árið 2018.

Haukur lék einnig 7 A-landsleiki fyrir Íslandi og var hluti af landsliðinu sem tók þátt á Evrópumótinu í Frakklandi sumarið 2016 þar sem Ísland komst alla leið í 8-liða úrslit keppninnar.

Haukur sneri aftur heim í KA í desember mánuði 2018 og lék 24 leiki í deild og bikar sumrin 2019 til 2021.

„Haukur hefur sýnt gríðarlegan karakter á undanförnum árum þar sem hann hefur barist við erfið meiðsli og gefið af sér til KA. Nú er hinsvegar komið að endapunkti og óskum við honum til hamingju með glæsilegan feril sem og þökkum fyrir hans framlag til KA,“ segir í tilkynningu á vef KA.

VG

UMMÆLI