Síðastliðinn laugardagur var litríkur í meira lagi í miðbæ Reykjavíkur en þá fór litahlaupið fram. The Color Run kemur hingað á Akureyri þann 8. júlí í sumar og búast má við að miðbærinn okkar verði í litríkara lagi þann daginn enda er litahlaupið ekkert venjulegt hlaup heldur skemmtihlaup og fjölskylduskemmtun af bestu gerð. Engin tímataka er í hlaupinu og ekki er nauðsynlegt að vera í sérstöku hlaupaformi heldur er mikilvægast að þátttakendur séu tilbúnir að skemmta sér og hafa gaman að. Hlaupið er 5km langt og eftir hvern hlaupinn kílómetra fara þátttakendur í gegnum litahlið þar sem sprautað er yfir fólk litapúðri, fyrst bláu, svo grænu, gulu og bleiku.
„Ég get ekki sagt að áhugi Akureyringa á þessum hlaupi komi mér á óvart því við höfum séð myndir og fréttaflutning af litahlaupinu í Reykjavík núna í þrjú ár. Við vitum að hópar hafi farið suður til að taka þátt í hlaupinu en núna gafst aðstandendum hlaupsins á Íslandi tækifæri á að koma með allan búnaðinn til okkar líka. Bæði árin 2015 og 2016 þurfti búnaðurinn að fara beint úr landi til notkunar í Svíðþjóð og Danmörku en í ár kröfðust við þess að fá að hafa búnaðinn lengur til að koma með litahlaupið hingað. Þessu fylgir mikill búnaður auk þeirra 6 tonna af litapúðri sem flutt voru til landsins,“ segir Magni.
„Það er nú þegar orðið ljóst að litahlaupið verður lang stærsta hlaup sem haldið hefur verið á Akureyri og nú þegar hafa hátt í 2.000 manns skráð sig í hlaupið og búast má við að það bætist talsvert fleiri við því þetta er sömu helgi og N1 mótið og Pollamótið fara fram. Það eiga örugglega einhverjir þátttakendur og aðstandendur þeirra eftir að skella sér í hlaupið sem hluta af þeirri miklu hátíð sem verður á Akureyri þessa helgi.“
UMMÆLI