NTC

Hátt í 2.000 manns hafa skráð sig Color Run á Akureyri

Mynd: Facebooksíða Color Run


Síðastliðinn laugardagur var litríkur í meira lagi í miðbæ Reykjavíkur en þá fór litahlaupið fram. The Color Run kemur hingað á Akureyri þann 8. júlí í sumar og búast má við að miðbærinn okkar verði í litríkara lagi þann daginn enda er litahlaupið ekkert venjulegt hlaup heldur skemmtihlaup og fjölskylduskemmtun af bestu gerð. Engin tímataka er í hlaupinu og ekki er nauðsynlegt að vera í sérstöku hlaupaformi heldur er mikilvægast að þátttakendur séu tilbúnir að skemmta sér og hafa gaman að. Hlaupið er 5km langt og eftir hvern hlaupinn kílómetra fara þátttakendur í gegnum litahlið þar sem sprautað er yfir fólk litapúðri, fyrst bláu, svo grænu, gulu og bleiku.

 Litapúðrið er í raun kornsterkja, eða maísenamjöl eins og það er kallað í daglegu tali, sem litað er með náttúrulegum litum og er litapúðrið viðurkennt af matvælastofnunum um heim allan og er ekki skaðlegt á neinn hátt. „Hugmyndin af litahlaupinu kviknar hjá Travis Snyder sem var hlaupari en fékk aldrei vini sína eða fjölskyldu til að taka þátt í áhugamáli sínu vegna þess að þau voru ekki hlauparar. Því kom hann upp með þá hugmynd að sameina hlaup þessari miklu skemmtun sem við þekkjum frá Holi hátíðinni á Indlandi þar sem litir og litapúður spila stórt hlutverk. Þar með náði hann að fá sína nákomnu aðila til að taka þátt í sínu áhugamáli og í kjölfarið fór The Color Run sigurför um Bandaríkin og í kjölfraið um heim allan. Í dag er litahlaupið í meira en 200 borgum í 50 löndum víðsvegar um heiminn,“ segir Magni Ásgeirsson, skipuleggjandi The Color Run á Akureyri í samtali við Kaffið.is

„Ég get ekki sagt að áhugi Akureyringa á þessum hlaupi komi mér á óvart því við höfum séð myndir og fréttaflutning af litahlaupinu í Reykjavík núna í þrjú ár. Við vitum að hópar hafi farið suður til að taka þátt í hlaupinu en núna gafst aðstandendum hlaupsins á Íslandi tækifæri á að koma með allan búnaðinn til okkar líka. Bæði árin 2015 og 2016 þurfti búnaðurinn að fara beint úr landi til notkunar í Svíðþjóð og Danmörku en í ár kröfðust við þess að fá að hafa búnaðinn lengur til að koma með litahlaupið hingað. Þessu fylgir mikill búnaður auk þeirra 6 tonna af litapúðri sem flutt voru til landsins,“ segir Magni.

„Það er nú þegar orðið ljóst að litahlaupið verður lang stærsta hlaup sem haldið hefur verið á Akureyri og nú þegar hafa hátt í 2.000 manns skráð sig í hlaupið og búast má við að það bætist talsvert fleiri við því þetta er sömu helgi og N1 mótið og Pollamótið fara fram. Það eiga örugglega einhverjir þátttakendur og aðstandendur þeirra eftir að skella sér í hlaupið sem hluta af þeirri miklu hátíð sem verður á Akureyri þessa helgi.“

 
Á meðfylgjandi myndbandi má sjá gleðina og stemninguna frá hlaupinu í Reykjavík um síðustu helgi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó