Hátíð sem kemur skemmtilega á óvart og minnir á mikilvægi menningarviðburðaMynd: Bjarki Freyr Brynjólfsson

Hátíð sem kemur skemmtilega á óvart og minnir á mikilvægi menningarviðburða

Hið árlega Listasumar á Akureyri stendur nú yfir en listasumarið er umgjörð fyrir fjölda viðburða og listasmiðja í bænum í júlí. Yfir 60 viðburðir eru skráðir í ár. Almar Alfreðsson, verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarstofu, hefur yfirumsjón með sumarhátíðum Akureyrarbæjar og þar með Listasumri, ásamt Jónsmessuhátíð og Akureyrarvöku.

„Ég hef vanalega starfsmann með mér en í ár mun ég stýra þessu einn svo það er nóg að gera og nauðsynlegt að skipuleggja sig vel,“ segir Almar í spjalli við Kaffið. Hann segir Listasumar vera hátíð sem kemur skemmtilega á óvart og minnir á mikilvægi menningarviðburða í alls konar formi.

Birkir Blær hélt tónleika á þaki Listasafnsins. Mynd: Bjarki Freyr Brynjólfsson

„Hátíðin hefur verið haldin með nokkrum hléum frá árinu 1992 og hefur stækkað jafnt og þétt í gegnum árin og skapað sér sess í viðburðaflóru sumarsins hér fyrir norðan. Einnig hefur samstarfsaðilum okkar fjölgað og því skapast skemmtilegt samstarf milli ólíkra aðila. Á síðustu árum hefur eitt af markmiðunum verið að koma á óvart og halda viðburði á óvenjulegum stöðum og oft þar sem fólk býst ekki við slíku. Við höfum haldið viðburði til að mynda á húsþaki, miðjum andapollinum, sundlauginni og slökkvistöðinni,“ segir Almar.

Almar segir að í ár hafi verið lögð áhersla á að hafa færri en stærri viðburði á Listasumri. Það sé að reynast nokkuð vel hingað til.

„Flamenco tónleikar, dansgjörningar, sirkussýning, götuleikhús og ljósmyndasýning í sundlaug Akureyrar er meðal þess sem er að finna á Listasumri. Einnig er metfjöldi listasmiðja í ár og því afar fjölbreyttar smiðjur í boði fyrir börn og fullorðna. Skráning er langt komin og því sniðugt að skrá sig sem fyrst til að missa ekki af fjörinu,“ segir Almar en heimahöfn Listasumars á samfélagsmiðlum er Facebook- og Instagramsíða Akureyrarbæjar. Hægt er að skoða viðburðardagatal nánar á listasumar.is

Morgunjóga í Lystigarðinum með Rakeli Eyfjörð. Mynd: Bjarki Freyr Brynjólfsson

UMMÆLI