Háskólinn á Akureyri verður 30 ára á árinu og efnir til fjölmargra viðburða

Mynd og frétt: unak.is

Mynd og frétt: unak.is

Formleg afmælisdagskrá Háskólans á Akureyri hefst föstudaginn 13. janúar með málþingi sem nefnist Haraldur Bessason og mótunarárin. Erindi verða flutt um Harald Bessason sem fræðimann og kennara, svo og fyrstu ár skólans út frá sjónarhóli starfsmanns og nemanda, auk þess sem rektor skólans mun fjalla um framtíðarsýnina. Þá verður opnuð sögusýning skólans, málverkasýningin Jónborg-Sólborg og Ritver Háskólans á Akureyri. Lára Sóley Jóhannsdóttir, Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir flytja lög við ljóð Vestur-Íslendinga og að lokum verður boðið upp á léttar veitingar.

Það sem mun einkenna afmælisárið er viðleitni háskólans til að tengjast enn betur samfélaginu með því að bjóða upp á viðburði við allra hæfi. Í þessu sambandi má nefna viðburði eins og Hjartans mál, Eyfirðingurinn í hnotskurn, Vísindi á mannamáli, Háskólinn á vettvangi, auk fjölda kynninga úr starfi háskólans.

Sigrún Stefánsdóttir, formaður afmælisnefndar, segir að undirbúningur hafi staðið yfir í marga mánuði og vonast hún til að allir finni eitthvað við sitt hæfi. „Við ætlum að hefja hátíðardagskrána á málþingi sem tileinkað er Haraldi Bessasyni, fyrsta rektor háskólans, enda á hann mikinn þátt í því hversu vel og örugglega skólinn dafnaði á upphafsárunum“, segir Sigrún og bætir við að íbúar á Eyjafjarðarsvæðinu fái sent heim borðdagatal þar sem helstu viðburðir afmælisársins koma fram. „Við viljum opna háskólann fyrir öllum og við vonumst til að taka á móti sem flestum á þessa viðburði“, segir Sigrún.

Eyjólfur Guðmundsson rektor segir að þetta séu mikilvæg tímamót í starfi skólans og hápunktur dagskrárinnar verði í september en skólinn tók til starfa 5. september 1987. „Þá ætlum við að halda veglega hátíð þar sem nemendur, kennarar, starfsfólk, bæjarbúar og aðrir gestir skólans koma saman og fagna þessum tímamótum. Enginn annar háskóli á landinu hefur vaxið eins hratt og HA og við erum mjög stolt af því að mennta fólk til starfa í heimabyggð“, segir Eyjólfur í samtali við unak.is.

Viðburði á afmælisárinu má finna í vefdagatali Háskólans á Akureyri eða áðurnefndu borðdagatali sem sent verður inn á heimili fólks á Eyjafjarðarsvæðinu í þessari viku.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó