NTC

Háskólinn á Akureyri hefur aldrei verið vinsælli

Mynd af Unak.is

Í fyrra var metaðsókn í nám við HA en nú er von á því að það met gerfalli. „Á síðustu árum hefur aðsókn í Háskólann á Akureyri aukist til muna og þar leikur sveigjanlega námið stórt hlutverk. Með því náum við til alls landsins og nemendur hafa verið mjög ánægðir með aukið aðgengi,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Mesti fjarnemafjöldinn er á Selfossi, í Reykjanesbæ og í Hafnarfirði. Alls eru 2.074 nemendur við nám í HA í dag, þar af eru 69% í sveigjanlegur námi.

Háskólarnir hafa allir verið að rýna í umsóknartölur enda má búast við fjölgun þetta árið þar sem framhaldsskólarnir eru sumir hverjir að útskrifa tvöfaldan árgang; annarsvegar þá sem ljúka stúdentsprófi á 4 árum og hinsvegar þá sem fara styttri leiðina og klára á 3 árum. „Þessar umsóknir eru að detta í hús þessa daga og því er sá hópur ekki inni í okkar tölum ennþá,“ segir Eyjólfur.

Ólíkt HÍ hefur HA ekki tekið upp A-próf heldur fara nemendur í fjöldatakmörkuðu námi í gegnum samkeppnispróf við lok fyrsta misseris. Nemendur sem ekki komast í gegnum þau próf geta fengið einingar metnar inn í annað nám eða haldið áfram og reynt aftur að ári. „Við erum persónulegur skóli og leggjum áherslu á að sinna hverjum nemanda fyrir sig. Það er von okkar að við getum haldið í þá sérstöðu,“ bætir Eyjólfur við.

Aðgangstakmarkanir hafa verið teknar upp í sálfræði og lögreglufræði, auk hjúkrunarfræði, en búast má við frekari aðgangstakmörkunum ef fram heldur sem horfir.

Háskólaráð Háskólans á Akureyri fjallaði um fjölgun umsókna við skólann á síðasta fundi og fagnar áhuganum sem nemendur sýna háskólanum. Allt stefnir í metaðsókn í nám við HA haustið 2018 en um 50% aukning er á heildarfjölda umsókna og nærri tvöföldun í umsóknum um kennaranám. Umræður eru í gangi á milli háskólaráðs og menntamálaráðuneytis um hvernig þessari auknu eftirspurn verður mætt. Það er von háskólaráðs að ríkisstjórnin sjái hér tækifæri til að efla aðgengi að háskólanámi á landinu öllu svo ekki þurfi að grípa til almennra aðgangstakmarkana í nám við Háskólann á Akureyri.

Sambíó

UMMÆLI