Háskólinn á Akureyri býður loks upp á doktorsnám

Háskólinn á Akureyri býður upp á doktorsnám í fyrsta skipti árið 2018.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, undirritaði í dag heimild Háskólans á Akureyri til að bjóða upp á doktorsnám á fræðasviðum heilbrigðisvísnda, hug- og félagsvísinda og viðskipta- og raunvísinda. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri.

Tvö ár eru síðan Háskólinn á Akureyri sótti um heimild til doktorsnáms. Síðan þá hefur átt sér stað umfangsmikið gæðamat erlendra fagaðila þar sem fræðileg og stjórnsýsluleg geta háskólans til þess að bjóða upp á doktorsnám hefur verið ítarlega skoðuð. Reiknað er með að fyrstu doktorsnemarnir hefji nám haustið 2018. Ríkar kröfur verða gerðar til þeirra og skilyrt að fyrirhuguð doktorsverkefni tengist öðrum rannsóknum innan háskólans. Þá verður gerð krafa um trygga fjármögnun rannsóknar áður en nám hefst. Fjöldi doktorsnema mun því að einhverju leyti ráðast af fjölda og upphæð rannsóknarstyrkja sem fást á næstu árum.

„Ferlið hefur verið langt og strangt og ég er mjög ánægður með niðurstöðu ráðherra menntamála sem byggir á niðurstöðu matsnefndar Gæðaráðs háskólanna. Ég tel að niðurstaða matsnefndarinnar sýni skýrt að Háskólinn á Akureyri sé tilbúinn að hefja þetta næsta skeið í sögu háskólans,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Doktorsnám við Háskólann á Akureyri mun hafa víðtæk áhrif og m.a. styðja við áform sjúkrahússins á Akureyri (SAk) að verða háskólasjúkrahús. Hægt verður að fara í dýpri rannsóknir á málefnum norðurslóða og rannsóknir í byggðamálum munu komast á nýtt stig þar sem doktorsnemar geta leitað nýrra lausna fyrir byggðarstefnu Íslands. Einnig má nefna að með heimildinni til að hefja doktorsnám verður betra aðgengi að alþjóðlegum rannsóknarhópum og rannsóknarsjóðum.

„Við leggjum áherslu á að bjóða upp á þverfaglegt doktorsnám á okkar sérsviðum enda er stærð skólans og góð samvinna fræðasviðanna það sem gerir háskólann okkar svo einstakan“, bætir Eyjólfur við.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra: „Ég lýsi sérstakri ánægju minni með þetta skref í uppbyggingu náms við Háskólann á Akureyri. Gildi skólans fyrir Akureyri og landsbyggðina hefur margsannað sig og það að vera kominn með kennara, fræði- og vísindamenn sem standast alþjóðlegar kröfur til að bjóða upp á doktorsnám segir í raun allt sem segja þarf. Til hamingju Háskólinn á Akureyri.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó