Háskólinn á Akureyri þátttakandi í Sjávarútvegsskóla GRÓ

Háskólinn á Akureyri þátttakandi í Sjávarútvegsskóla GRÓ

Háskólinn á Akureyri hefur verið virkur þátttakandi í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna frá upphafi hans árið 1998. Skólinn er nú nefndur Sjávarútvegsskóli GRÓ, eftir að hann var fluttur undir GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Stúdentum skólans er skipt í fjóra hópa eftir að þeir hafa allir verið saman í upphafshluta námskeiðsins. Einn hópurinn er staðsettur við Háskólann á Akureyri. Í ár sækja tíu stúdentar skólann sem er hýstur í HA. Stúdentarnir eru frá Líberíu, Sierra Leone, Keníu, Tansaníu, Malawi, Papúa Nýju-Gíneu, Solomoneyjum, Fiji og Sri Lanka og munu þeir dvelja hér fram í maí.

„Þau eru að læra um hvernig á að stjórna fiskveiðum í mjög víðu samhengi, hvernig veiða má á sjálfbæran hátt, hvernig hafa má veiðarnar arðbærar og hvernig samfélagið getur haft sem mestan hag af. Dagskráin er mjög fjölbreytt og það eru um tuttugu starfsmenn HA sem leiðbeina og kenna þessum stúdentum. Auk þess er mikið samstarf við Fiskistofu, sem er með okkur í húsi. Afar mikilvægur hluti af þessu er líka heimsóknir í fyrirtæki á svæðinu. Þar hefur okkur ávallt verið afar vel tekið,“ segir Hreiðar Þór Valtýsson, deildarforseti Auðlindadeildar og umsjónarmaður Sjávarútvegsskólans á Akureyri.

Tengir saman sjávarútveg, menningu og sögu

„Sem meðlimur GRÓ FTP (Fisheries training program) er ég með skammtíma- og langtímamarkmið. Langtímamarkmið mitt er að gera verkefni um kenískan sjávarútveg þar sem ég mun fjalla um samvinnu milli hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Í Keníu er ekki gott samband milli stjórnvalda og almennings þegar kemur að ákvörðunum í sjávarútvegi. Í framtíðinni langar mig að gerast doktor í mannfræði sem tengir saman sjávarútveg, menningu og sögu. Skammtímamarkmið mitt hér er er að taka þátt í sjálfbærniráðstefnu sem haldin verður við Háskólann á Akureyri 12. apríl næstkomandi,’’ segir Patrick Wanguche Otuo frá Keníu, sem segir ýmsar áskoranir fylgja því að búa á Akureyri þennan tíma. „Auðvitað er erfitt að vera í burtu frá fjölskyldu og vinum og ég sakna Keníu. Veðrið er ólíkt heimalandinu og ég er vanur meira sólskini. Hins vegar eru Akureyringar og Íslendingar almennt mjög vingjarnlegir. Ísland er einnig mjög friðsamur staður. Þessir þættir gera dvölina ekki það krefjandi.’’

Patrick segir ýmislegt skemmtilegt þegar hafa átt sér stað. „Samskipti við fjölbreytta einstaklinga hafa gefið mér dýrmæt tækifæri, eins og að taka þátt í sjálfbærniráðstefnunni. Þá hef ég einnig þegar náð að eignast vini á staðnum. Það skemmtilegasta sem við höfum gert nú þegar er líklega ferð sem við fórum í á Hauganes með Magnúsi Víðissyni og Freysteini Nonna Mánasyni, aðjúnktum við Auðlindadeild HA. Við fórum í hvalaskoðun þar sem við sáum hnúfubaki og veiddum mikið af þorski, og síðan fengum við frábæra kynningu frá Elvari Reykjalín, eiganda Ekta Fisks. Þá enduðum við ferðina á því að borða mjög góðan fisk á Baccalá Bar á Hauganesi,’’ segir Patrick glaður í bragði.

Alltaf gott veður á Akureyri

„Hingað til hefur mér líkað dvölin á Akureyri. Umhverfið er vinalegt og íbúarnir líka. Annað en fyrir sunnan þá er strætó frír! Hins vegar undirbjuggum við okkur fyrir það versta áður en við komum norður. Okkur hafði verið sagt að Akureyri væri mun kaldari staður en Suðurlandið og við höfðum áhyggjur af því. Við erum þó enn að bíða eftir þessu slæma og kalda veðri,’’ segir Patrick að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó